Ásmundur færir sig í Reykjavíkurkjördæmi norður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis fyrir Framsóknarflokk, hefur ákveðið að gefa kost á sér til forystu á framboðslista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður í næstu Alþingiskosningum. Hann lýsti þessu yfir á Facebook síðu sinni í dag.

„Það kann að virðast sérstök ákvörðun að fara úr því sem næst öruggu þingsæti í Norðvesturkjördæmi, þar sem Framsókn á sér langa og farsæla sögu, í framboð þar sem flokkurinn hefur glímt við ýmsar áskoranir í undanförnum kosningum. Að baki þessari ákvörðun liggur metnaður til að ná fram stórum pólitískum breytingum í íslensku samfélagi,“ segir Ásmundur Einar í tilkynningunni.

Oddviti Reykjavíkurkjördæmis norður í síðustu kosningum var Lárus Sigurður Lárusson, héraðsdómslögmaður. Hann náði ekki inn á þing. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra var oddviti Reykjavíkurkjördæmis, suður.

Fréttin var uppfærð 18:22