Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Allir komnir með ógeð hver á öðrum“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Allir komnir með ógeð hver á öðrum“

13.01.2021 - 13:51
Ísland og Portúgal mætast í þriðja sinn á átta dögum þegar liðin leiða saman hesta sína í fyrsta leik á HM karla í handbolta í Portúgal annað kvöld. Leikstjórnandinn Janus Daði Smárason lýsir rimmunum við Portúgala eins og úrslitakeppni með félagsliði.

„Þetta er mjög óvenjulegt en maður þekkir þetta svosem alveg. Það er hægt að horfa á þetta eins og maður sé bara í úrslitakeppni með félagsliði, þetta er ekki ósvipað. Staðan er núna 1-1 og við erum ólmir í að klára dæmið með sigri á móti þeim á morgun,“ segir Janus en Portúgal vann fyrsta leikinn í undankeppni EM með tveggja marka mun fyrir viku. Ísland svaraði svo með níu marka sigri á Ásvöllum á sunnudag. 

Ferðast með þeim í flugvél

Janus býst við afar mikilli baráttu í leik liðanna í Kaíró á morgun. „Ég held að þetta verði bara stríð og við þurfum að mæta vel vopnaðir,“ segir Janus. Til að lágmarka smithættu hafa hópar Íslands og Portúgal ferðast mikið saman síðustu daga. 

„Við erum að mætast í þriðja sinn og bæði lið hafa ferðast saman í flugvél hvert sem við förum. Það eru því allir komnir með ógeð hver á öðrum, þetta verður barátta.“ 

Öxlin ekki alveg 100%

Janus hefur glímt við meiðsli í öxl og segist ekki vera orðinn alveg góður. „Ég hef oft verið betri, það er ekki það. En við erum með flott teymi hér með okkur og ég hef aðeins getað stýrt álaginu sjálfur á æfingum og svoleiðis. Ég verð vonandi bara klár á morgun.“ 

En verður Janus 100% klár í slaginn þegar flautað verður til leiks á morgun? 

„Já, eitthvað þannig,“ segir Janus sposkur að lokum. 

Flautað verður til leiks í viðureign Íslands og Portúgal klukkan 19:30 annað kvöld en upphitun hefst á RÚV klukkan 19:15.