
Vonast til að rannsókn á andlátum ljúki í vikunni
Lyfjastofnun hefur fengið sex tilkynningar um mögulegar alvarlegar aukaverkanir af bóluefni Pfizer við Covid-19, þar af fimm andlát. Í öllum tilvikum voru tilkynningarnar vegna háaldraðs fólks með undirliggjandi sjúkdóma, búsett á hjúkrunarheimilum. Talið er ólíklegt að það sé fylgni þarna á milli, en Landlæknir, sóttvarnarlæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákváðu engu að síður að láta rannsaka tengslin þar sem um nýtt bóluefni er að ræða. Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir verður skoðað hvort breyta þurfi nálgun að bólusetningum eldri einstaklinga. Rannsóknin hófst 6. janúar og vonast er eftir því að hún taki um það bil viku eða tíu daga, sem þýðir að niðurstöður ættu að skila sér í þessari viku.
Fá upplýsingar frá nágrannalöndunum
Jafnframt hefur verið kallað eftir upplýsingum frá Norðurlöndunum og frá Lyfjastofnun Evrópu um hvort sjá megi aukna tíðni dauðsfalla hjá eldri einstaklingum sem hafa verið bólusettir í öðrum Evrópulöndum undanfarna daga og vikur. Þá fer fram sérstök tölfræðigreining á dauðsföllum í þessum hópi á vegum embættis landlæknis, er segir í tilkynningu frá embættinu.