Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vilja opinn fund með yfirvöldum um krabbameinsskimanir

12.01.2021 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsvarsmenn Krabbameinsfélagsins og Krafts, félags ungs fólks með krabbamein, gagnrýna harðlega þær breytingar sem urðu um áramót á skimunum fyrir brjóstakrabbameini. Þær kalla eftir opnum fundi með heilbrigðisyfirvöldum þar sem breytingarnar verði rökstuddar. Brjóstakrabbamein er algengasta tegund krabbameins hjá konum.

Margar sem greindust fertugar

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, og Elín Sandra Skúladóttir, formaður Krafts, stuðningsfélags ungs fólks með krabbamein, voru gestir Morgunútvarpsins í morgun. Þær gagnrýndu báðar harðlega þær breytingar sem urðu nú um áramót á skimunum fyrir brjóstakrabbameini, sem er algengasta tegund krabbameins hjá konum. Nú verður konum ekki boðið í fyrstu brjóstaskimun fyrr en þær eru 50 ára, í stað 40 eins og var áður. Elín Sandra segir marga félagsmenn Krafts konur sem greindust í skimuninni fertugar. 

„Sumar konur eru með mein sem er erfitt að þreifa sjálf fyrir í brjóstum, það liggur bara það innarlega. Tíu ár, það er rosalega langur tími til að leyfa krabbameini að vaxa, þannig að við í Krafti, og félagsmenn okkar, eru bara svolítið slegin yfir þessum fréttum,” segir Elín Sandra. 

Fylgja stundum reglunum en stundum ekki 

Halla bendir á að heilbrigðisyfirvöld, það er að segja skimunarráð, ákveði breytingarnar og segjast vera að fara eftir þeim reglum sem gildi í Evrópu. Nú mega til að mynda konur á aldrinum 70 til 74 ára mæta áfram í reglubundna skimun, en áður hætti það við 69 ára aldurinn. En aftur á móti segja Evrópureglurnar að konur frá 45 ára eigi að fá skimun, en ekki 50. 

 „Samtal við almenning, upplýsingagjöf til almennings, hún skiptir bara öllu máli. Það eru mestar líkur á að fá fólk með ef fólk skilur hvað um er að ræða,” segir Halla. „Við söknum þess og gerum athugasemdir við að þetta hafi ekki verið kynnt, þetta sé ekki útskýrt og hafi ekki verið rökstutt af hverju er verið að gera þessar breytingar.” 

Konur ættu að fá að spyrja

Halla og Elín segjast kalla báðar eftir opnum fundi með stjórnvöldum þar sem breytingarnar verða útskýrðar og rökstuddar. 

„Það væri náttúrulega æskilegast ef fulltrúar stjórnvalda væru tilbúnir til að koma á opinn fund þar sem konur í landinu gætu mætt og fengið góðar útskýringar og fengið að spyrja.”