Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stefnt að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka í sumar

12.01.2021 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fjármálaráðherra stefnir að því að hefja söluferli á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir lok mánaðar og útboð verði eftir fimm mánuði.

Samkvæmt minnisblaði sem Bankasýsla ríkisins sendi fjármálaráðherra 17. desember er lagt til að selja eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka. Fjármálaráðherra hefur fallist á þessa tillögu og fjalla tvær þingnefndir um málið í dag, annars vegar efnahags- og viðskiptanefnd, sem kom saman upp úr klukkan níu í morgun og síðan fjárlaganefnd sem hittist klukkan eitt. Þar er fjallað um greinargerð fjármálaráðuneytisins um markmið með sölunni og aðferð. Í bréfi sem ráðherra skrifaði nefndunum rétt fyrir jól er óskað eftir því að umsögn nefndanna liggi fyrir ekki síðar en tuttugasta þessa mánðaðar. Sama dag skrifaði ráðherra Seðlabanka Íslands og óskaði eftir að umsögn bankans um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð og óskar ráðherra eftir að umsögn bankans liggi fyrir eigi síðar en á föstudaginn. Þegar umsagnirnar liggja fyrir verður endanleg ákvörðun tekin.

Í minnisblaðið bankasýslunnar er lagt til að strax í þessum mánuði verði lögfræði- og söluráðgjafar ráðnir, síðan fari fram áreiðanleikakannanir, gerð frumverðmats og fleira en í júní verði tilboða og áskriftarloforða aflað. Í greinargerð fjármálaráðuneytisins sem nú eru til umfjöllunar er lagt til að fjórðungshlutur í bankanum verði seldur í frumútboðinu, séu markaðsaðstæður hagfelldar en meira síðar, þannig að meiri og jafnvel allir hlutir verði seldir.

Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður náði tali af fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu.

„Það er mælt með því af hálfu Bankasýslunnar að við látum reyna á skráningu á bankanum núna. Og við erum þá að horfa til þess að skrá hluta bankans og losa síðan í gegnum markaðinn frekara eignarhald ríkisins á komandi misserum og árum. Þannig ættum við að fá meðalverð markaðarins yfir tímabilið sem selt er og ef við horfum til þess sem hefur verið að gerast á hlutabréfamörkuðum undanfarið ár, þá er það bæði svo að hlutabréf hafa verið að hækka umtalsvert í verði, bæði bankar og önnur fyrirtæki.“
Þannig að þú tekur ekki undir að vextir séu lágir og betra að bíða núna og selja bankann síðar þó að ríkissjóður sé skuldugur?
„Það er gott fyrir hlutabréfaverð ef vextir eru lágir þannig að það ætti að hjálpa til við söluna.“
Þannig að þú ert fylgjandi þessu?
„Já já,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV