Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pfizer skoðar hvort til sé nóg bóluefni fyrir rannsókn

12.01.2021 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Bandaríska lyfjafyrirtækið Pfizer skoðar nú hvort til sé nóg bóluefni í bólusetningarrannsókn hér á landi. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann vonast eftir svörum frá Pfizer í vikunni.

Þórólfur og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafa átt í viðræðum við Pfizer um að Ísland taki þátt í bólusetningarrannsókn og fái þar með viðbótarskammta fyrir stóran hluta þjóðarinnar fyrr en áætlað er.

Pfizer leiti leiða til að svara á jákvæðan máta

„Boltinn er ennþá hjá þeim,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu. „Þeir hafa ekki svarað formlega. Ég veit að þeir eru að skoða hvort þeir eigi bóluefni í þetta. Því það er auðvitað mikil ásókn í bóluefni og þeir eru með skuldbindingar um allan heim,“ bætir hann við og segir að Pfizer sé ekki í auðveldri stöðu. 

„En ég veit að þeir hafa mikinn áhuga á svona rannsókn. Og ég tel að málið sé statt þannig núna að þeir séu að leita leiða til að geta svarað okkur á jákvæðan máta. Svo verður bara að koma í ljós hvernig það verður,“ segir Þórólfur.

Mikil pólitík í spilinu

Þegar Þórólfur er spurður hvort álitamál í tengslum við alþjóðlegt samstarf um bóluefni við COVID-19, eins og COVAX, setji strik í reikninginn segir hann að Evrópusamstarfið gangi að hluta til út á að koma í veg fyrir að þjóðir semji utan við sameiginlega samninginn. 

„Það er náttúrulega verið að reyna að tryggja öllum þjóðum aðgang að bóluefni svo stóru og ríku þjóðirnar séu ekki að ofbjóða sig fram fyrir aðra. Það er mikið um það rætt og örugglega mikil pólitík í spilinu sem ég þekki ekki,“ segir hann.

Þórólfur segist ekki vita hvort samningur Ísraela við Pfizer um að bólusetja þorra þjóðarinnar fyrir marslok hafi áhrif á viðræðurnar. „Ég get ekkert sagt um það. Ég veit að það eru allir að reyna að ná í meira bóluefni og Pfizer eru fyrstir á markaðinn og þá eru allir að ýta á þá. En ég hef ekki hugmynd um það hvernig málunum er háttað með Ísrael og Pfizer,“ segir hann. 

Vonast eftir svörum í vikunni

Hann segist síðast hafa verið í sambandi við Pfizer í gær og vonast eftir frekari upplýsingum þaðan mjög fljótlega.

„Já, ég á von á því að það verði í vikunni einhvern tímann að þeir geti sagt okkur af eða á. Ég held að maður verði bara að bíða og sjá til með það,“ segir hann.