Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Loka samskiptamiðlum skömmu fyrir kosningar

12.01.2021 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjarskiptastofnunin í Úganda skipaði í dag öllum netveitum í landinu að loka þegar í stað á samskiptamiðla og skilaboðaforrit. Tveir dagar eru til forsetakosninga þar sem Yoweri Museveni forseti sækist eftir endurkjöri. Fyrrverandi poppstjarna er helsti mótframbjóðandi hans.

Í gær var lokað á Facebook hjá fjölda embættismanna í upplýsingamálaráðuneytinu í Kampala. Þeir höfðu búið til net sem þeir nýttu til að ófrægja mótframbjóðendur forsetans, einkum stjórnarandstæðinginn Bobi Wine sem nýtur mikils fylgis. Hann naut vinsælda í landinu sem poppsöngvari og leikari áður en hann sneri sér að stjórnmálum. 

Að sögn AFP fréttastofunnar hefur verið slökkt á öllum samskiptamiðlum í Úganda. Þegar talsmaður fjarskiptastofnunarinnar var spurður hverju þetta sætti svaraði hann að hann vissi ekki til þess að nein fyrirskipun hefði verið gefin út um að lokað skyldi á þá. Samskipti á netinu gengju hægt vegna mikillar umferðar í aðdraganda kosninganna.

Bobi Wine skoraði í dag á stuðningsmenn sína að mæta á kjörstað og vera þar eins lengi og þeir gætu til að fylgjast með því hvort menn forsetans stæðu fyrir kosningasvikum. Hann sagði að allir hefðu nú þegar gert upp hug sinn og fólk vildi sjá betra og friðsælla Úganda en hingað til.

Bobi Wine greindi jafnframt frá því að öryggissveitir forsetans hefðu ráðist inn á heimili hans í nótt og handtekið alla öryggisverði hans. Margir stuðningsmenn hans hafa verið handteknir að undanförnu.