Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Landsréttur staðfesti úrskurð Skúla í vil

12.01.2021 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd
Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. nóvember um að vísa frá kröfu LLC, dótturfélags ALC, Air Lease Corporation, í gagnsök á hendur Skúla Mogensen frá dómi. Öllum kröfum félagsins á hendur Skúla var því vísað frá.

ALC skaut málinu til Landsréttar með kæru 9. desember í fyrra en það er angi af dómsmáli vegna kyrrsetningar Isavia á vél ALC sem WOW air hafði á leigu þegar félagið varð gjaldþrota í mars 2019. Leigusalinn ALC leitaðist við að ná umráðum vélarinnar af Isavia. Um þann ágreining voru rekin þrjú dómsmál og komu tvö til kasta Hæstaréttar.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu 17. júlí 2019 að ALC bæri að greiða þær skuldir sem hvíldu á kyrrsettri þotu, sem félagið leigði WOW, en ekki allar skuldir WOW air við Isavia. 

Isavia stefndi þá ALC og íslenska ríkinu þar sem þess var krafist að þau greiddu sameiginlega rúmlega tvo milljarða króna á ásamt vöxt­um og drátt­ar­vöxt­um vegna fjár­tjóns sem hlaust af úrskurði héraðsdóms 17. júlí 2019.

ALC lagði þá fram kæru á hendur Skúla og íslenska ríkinu í gagnsök þar sem þess var krafist að þau greiddu sameiginlega um 350 milljónir íslenskra króna vegna fjártjóns vegna kyrrsetningarinnar.

Vanreifað og illa rökstutt mál

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms í fyrra „skortir verulega á að málsgrundvöllur [LLC] gagnvart [Skúla] sé í heild sinni nægilega skýr og eru þeir annmarkar svo verulegir að telja verður að komi niður á möguleikum hans til að halda uppi vörnum í málinu. Af þessum ástæðum verður fallist á kröfu gagnstefnda um frávísun málsins.“

ALC ber að greiða Skúla 350.000 kr. í málskostnað.

Úrskurðinn má lesa á vef Landsréttar.