Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða“

12.01.2021 - 15:59
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Formaður Blaðamannafélags Íslands segir það vera afturför fyrir fjölmiðlun hér á landi að fréttir Stöðvar 2 verði ekki í opinni dagskrá. Nýlegir atburðir í Bandaríkjunum sýni fram á mikilvægi fjölmiðla sem séu áreiðanlegir og traustir.

Frá og með 18. janúar verða fréttir Stöðvar 2 aðeins aðgengilegar áskrifendum. Frá stofnun Stöðvar 2 hafa kvöldfréttir verið í opinni dagskrá, að undanskildu stuttu tímabili árið 1990 þegar sambærileg lokun var viðhöfð. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands segir aðgerðina ekki góða gagnvart fjölmiðlun í landinu.

„Manni bregður við, og þetta eru straumhvörf í íslenskri fjölmiðlun og skref aftur á bak að mínu viti. En kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða og auðvitað þurfa rekstraraðilar á þessum mörkuðum eins og öðrum að bregðast við aðstæðum og ég hygg að þetta sé vel undirbúið og úthugsað, en klárlega afturför fyrir íslenska fjölmiðlun, því miður,“ segir Hjálmar.

Hann segir að  fjölmiðlar hér á landi bíði með mikilli eftirvæntingu eftir  fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra en það bíður afgreiðslu Alþingis. Breytingar í heimi fjölmiðla seinustu 20 ár séu til þess fallnar að aðkomu stjórnvalda þurfi að hugsa upp á nýtt.

„Við erum búin að vera að bíða eftir að það komi eitthvað, en það hefur ekki komið svo menn þurfa að bregðast við. Ég held að þetta sé til dæmis ekki gott fyrir Ríkisútvarpið. Ég held að það sé mjög vont fyrir Ríkisútvarpið að hafa ekki aðila sem er í opinni dagskrá til að spegla sig við og bera sig saman við í opinni dagskrá. Ég held að menn verði klárlega að fara yfir þessa fjármögnun. Það er að mínu viti tímaskekkja að Ríkisútvarpið sé ekki alfarið fjármagnað af almannafé, almannaútvarp eðli málsins samkvæmt á að vera þannig. Löndin í kringum okkur eru ekki með auglýsingar nema með mjög takmörkuðum mæli og vel skilgreint,“ segir Hjálmar.

Hann segir að það hafi verið framfaraskref og upphaf blómaskeiðs fjölmiðlunar hér á landi þegar einkaleyfi ríkisins á útvarpsútesendingum var gefið frjálst og Stöð 2 og Bylgjan var stofnuð árið 1986. Fjölmiðlar hafi aldrei verið jafn mikið notaðir og nú og hlutverk þeirra sé samfélaginu miklvægt sem aldrei fyrr. Hjálmar segir uppþotið við þinghúsið í Washington í seinustu viku til að mynda hafa sýnt fram á mikilvægi vandaðra fjölmiðla.

„Þess vegna eru gæði fjölmiðlunar alveg lykilatriði og það sem við verðum að horfa á. Við sáum það bara á nýliðnum atburðum nýlega í Bandaríkjunum hvað þetta er mikilvægt og hvað það eru mörg grundvallaratriði sem við þurfum að ræða og horfa á. Þegar hliðverðir eru ekki lengur fyrir hendi, það er sama hvaða rugl getur gerst, þá sjáum við hvað gerist. Að mínu viti þá  er það sem er að gerast í Bandaríkjunum bein afleiðing af þeim þjóðfélagsbreytingum sem þessi tækni er að valda og við erum að upplifa,“ segir Hjálmar.

Lengri útgáfu viðtals við Hjálmar má heyra í spilaranum hér að ofan.