Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Íbúðaverð hækkar en leiguverð lækkar víða

12.01.2021 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði hratt á nýliðnu ári en leiguverð stóð í stað og lækkaði víða. Þetta kemur fram í nýrri hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í nóvember mældist árshækkun leiguverðs 1,4 prósent, en hækkun íbúðaverðs í fjölbýli 7,0 prósent. Leiguverð lækkaði milli mánaða á tímabilinu frá janúar og fram í maí. Verðið hækkaði svo lítillega í sumar og fram í október. Það hækkaði um 0,7 prósent milli mánaða í nóvember en tölur desembermánaðar liggja ekki enn fyrir. 

Í hagsjánni er bent á að kórónuveirufaraldurinn hafi haft að minnsta kosti tvenns konar áhrif á leigumarkaðinn, sem annars vegar hafa dregið úr eftirspurn og hins vegar aukið framboð og þannig haldið leiguverði í skefjum. Í fyrsta lagi hafi vextir verið lækkaðir sem viðbragð við faraldrinum, það hafi auðveldað fasteignakaup og þar með dregið úr eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Í öðru lagi hafi farsóttin dregið mjög úr komu ferðamanna til landsins og þar með minnkað eftirspurn eftir Airbnb-húsnæði. Því hafi íbúðir sem áður voru leigðar út í gegnum Airbnb ratað inn á almenna leigumarkaðinn og þar með aukið framboð. 

Ef litið er til breytinga á meðalfermetraverði innan einstakra hverfa lækkaði leiguverð þónokkuð á flestum svæðum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu frá nóvember 2019 til nóvember 2020. Leiguverð á þriggja herbergja íbúð í Breiðholti lækkaði um 30 prósent og leiguverð á sambærilegri íbúð í vesturbæ Reykjavíkur, þar sem það er einna hæst, lækkaði um næstum 20 prósent.

„Það má því segja að leigumarkaðurinn hafi almennt verið talsvert rólegri en íbúðamarkaðurinn á nýliðnu ári, sér í lagi frá því að COVID-19- faraldurinn hófst,“ segir í hagsjánni.