HM hefst á morgun

epa07312582 Tunisia's Marouan Chouiref (R) in action against Egypt's Ali Zeinelabedin (L) during the IHF Men's Handball World Championship match between Tunisia and Egypt in Herning, Denmark, 23 January 2019.  EPA-EFE/SRDJAN SUKI
 Mynd: EPA

HM hefst á morgun

12.01.2021 - 10:21
Heimsmeistaramót karla í handbolta hefst í Egyptalandi á morgun. Það verður þó aðeins einn leikur á dagskrá fyrsta keppnisdaginn. Heimamenn í liði Egyptalands taka á móti Chile í upphafsleik mótsins.

Liðin leika í G-riðli HM og munu spila í glæsilegri höll í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, en þó ekki fyrir framan neina áhorfendur. Leikurinn verður þó sýndur á RÚV 2 annað kvöld, en hann hefst klukkan 17:00.

Mótið fer svo almennilega af stað á fimmtudag. Þá verða sjö leikir spilaðir á mótinu og fjórir þessarra leikja verða sýndir á rásum RÚV. Meðal annars leikur Íslands og Portúgals klukkan 19:30. Allir leikir Íslands á mótinu verða sýndir á RÚV og lýst í útvarpinu á Rás 2. Misjafnt er hvort hinir leikirnir verða sýndir á RÚV eða á RÚV 2, en nánar má sjá um leiki fram undan hér.

Íslenska landsliðið ferðaðist til Egyptalands í gær með millilendingu í Kaupmannahöfn. Liðið dvelur á hóteli í Kaíró og gilda strangar sóttvarnarreglur á mótinu vegna COVID-19. Íslenska liðið þarf því að dúsa mikið á hótelinu milli þess sem það fær að fara á æfingar og svo í keppnishöllina að spila leikina sjálfa.