Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hitaveitan til vandræða á Seyðisfirði eftir skriðuna

default
 Mynd: Almannavarnir/Ríkislögreglustj - RÚV
Ýmis vandamál hafa komið upp við að halda hitaveitu á Seyðisfirði gangandi eftir skriðuföllin um miðjan desember. Höggbylgjan af völdum skriðunnar laskaði kerfið og hefur leki komið að kerfinu á nokkrum stöðum.

Eitt að því sem skemmdist í skriðunni þann 18. desember er hitaveitukerfi bæjarins. Þegar skriðan féll skemmdust heitavatnslagnir og hefur viðgerð ekki getað farið fram þar sem lagnir skemmdust undir skriðunni. Vitað er um stóra leka á þremur stöðum í bænum. 

Rarik á og sér um að sjá Seyðfirðingum fyrir heitu vatni. Vatnið er hitað með rafmagni fyrir bæinn og þegar mikið liggur við þarf að hita það með olíu. Það er þó aðeins gert ef brýna nauðsyn ber til. Skemmdir á heitavatnsinntökum húsa sem skemmdust hafa það í för með sér að mikil óhreinindi og loft kemst inn í kerfið.

Guðmundur Hólmar Guðmundsson, starfsmaður RARIK á Austurlandi segir í samtali við fréttastofu að mikil vinna fari í að finna lekana á lögnunum sem liggja í gatnakerfi bæjarins. Í gær hafi tekist að gera bráðabirgðaviðgerð á einum stað. Vandamálin séu hins vegar af ýmsum toga. Til að mynda sé slæmt þegar kerfið kólnar því þá skreppur stálið í lögnunum saman og slitnar. Þá komist súrefni og óhreinindi inn í kerfið sem veldur tjóni á lögnunum. Ítrekar hefur þurft að skipta um síur og passa upp á að vatnið mengist ekki af jarðveginum. 

Hann vonast til að næstu daga verði unnt að laga þá leka sem eru undir stóru skriðunni, en það verði að koma í ljós hvernig hreinsunarstarfinu vindur fram. Hann segir að það eigi ekki að vera kalt í þeim húsum sem búið er að aflétta rýmingu á.