Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Evrópuþingmaður krafinn skýringa á fordómafullum orðum

12.01.2021 - 02:19
epa08210652 European countries' flags and the European Union flag fly in front of the 'Louise Weiss Building', the seat of the European Parliament, in Strasbourg, France, 11 February 2020.  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Viktor Uspaskich litháenskur þingmaður á Evrópuþinginu þarf að útskýra ástæður þess að hann kaus að kalla samkynhneigt og transfólk „öfugugga“ í myndbandi sem hann birti á Facebook síðu sinni. Honum er gefið svigrúm til fimmtudags til útskýringa og að biðjast afsökunar á orðum sínum.

Dacian Ciolos, forystumaður þess hóps þingmanna á Evrópuþinginu sem Uspaskich tilheyrir, krefst afsökunarbeiðni ella sjái hann til þess að þingmanninum verði vikið úr hópnum.

AFP-fréttastofan hefur eftir Ciolos að fái hann ekki svar eða það verði ófullnægjandi verði greidd atkvæði um áframhaldandi veru Uspaskich í hópnum.

Um sex vikur eru síðan Jozsef Szajer, ungverskur þingmaður Evrópuþingsins, sagði af sér eftir að hafa verið handtekinn eftir kynlífspartí í Brüssel.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV