Umfangsmikil rannsókn á broti sem reyndist ekki neitt

11.01.2021 - 22:47
default
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Lögreglan á Austurlandi réðst í umfangsmikla rannsókn í kvöld eftir að ábending barst um meint sóttvarnabrot í Neskaupstað, samkvæmt heimildum fréttastofu. Upptökur úr öryggismyndavélum voru skoðaðar og rætt var við nokkurn fjölda vitna. Rannsóknin leiddi í ljós að ekkert sóttvarnabrot hafði verið framið.

Austurfrétt greindi frá rannsókn lögreglu í kvöld. Þar kom fram að þjónustustöð Olís í Neskaupstað hefði verið lokað um kvöldmatarleytið vegna málsins.

Frásögnin var á þá leið að einstaklingur sem átti að vera í einangrun með virkt COVID-19 smit hefði komið inn á þjónustustöðina. Á einhverjum tímapunkti breyttist frásögnin og smituðu einstaklingarnir voru orðnir tveir, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. 

Fram kemur í frétt Austurfréttar að rétt hafi þótt að loka stöðinni í öryggisskyni og sótthreinsa hana. 

Eftir ítarlega rannsókn lögreglu, þar sem upptökur úr öryggismyndavélum voru skoðaðar og rætt við nokkurn fjölda vitna, kom í ljós að að ekkert sóttvarnabrot hafði verið framið. Enginn sem átti að vera í einangrun hafði komið inn á þjónustustöðina.

Í kvöld sendi lögreglan frá sér stutta orðsendingu þar sem hún bað íbúa um að gæta hófs í orðum og æði á samfélagsmiðlum.

Austurland hefur að mestu leyti verið laust við smit. Fjórir íbúar, sem búsettir eru í landsfjórðunginum eru nú hins vegar í einangrun, samkvæmt covid.is. Fram hefur komið í færslum frá aðgerðarstjórn á Austurlandi síðustu daga að þessir fjórir hafi allir greinst við skimun á landamærunum.

Íbúar hafa verið hvattir til að gæta fyllstu varkárni og fylgja persónubundnum sóttvörnum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV