Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óperustjóri vísar ásökunum söngvara á bug

11.01.2021 - 13:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Söngvurum finnst þeir til lengri tíma hafa fengið lítilsvirðandi viðmót frá stjórnendum Íslensku óperunnar,“ segir Ása Fanney Gestsdóttir, formaður Klassís, fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, í samtali við fréttastofu. Klassís hefur lýst yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar vegna stjórnunarhátta síðustu ár en Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri hafnar ásökunum félagsins og vill stofna til samtals við söngvara um samningagerð.

Segir söngvurum nóg boðið

Ása Fanney segir félagsmenn Klassís telja ljóst að óperustjóri og stjórn Íslensku óperunnar beri hag óperusöngvara ekki fyrir brjósti. „Ég held að söngvurum sé einfaldlega nóg boðið. Og traustið virðist vera farið,“ segir hún. 

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri segir í samtali við fréttastofu að það sé eðlilegt að uppi séu ólíkar skoðanir um stjórnun menningarstofnana. „En ég á í mjög góðum samskiptum við fjölmarga söngvara sem koma fram á okkar vegum, svo þessi viðbrögð koma mér auðvitað mjög á óvart,“ segir hún. „Klassís er tiltölulega nýstofnað félag sem er leitt af fólki sem hefur haft aðrar skoðanir á Íslensku óperunni en við sem stjórnum og þau hafa haldið uppi gagnrýni sem er auðvitað bara hið besta mál,“ segir hún. 

Óperustjóri hafnar ásökunum

Ása Fanney segir ótalmörg dæmi þess að söngvarar sem leiti réttar síns vegna kjaramála séu ekki aftur ráðnir til Íslensku óperunnar. „Og einmitt vegna þess að þetta er eini starfsvettvangur íslenskra óperusöngvara þá treysta sér fáir til að koma fram með sín umkvörtunarefni. En já, það eru ótalmörg dæmi um það,“ segir hún.

Steinunn Birna segist hafna þessum ásökununum með öllu: „Við vísum þeim ásökunum alfarið á bug, það er bara ósköp einfalt,“ segir hún.

Lengi haft grun um launamun kynja

Í yfirlýsingu Klassís segir einnig að innan Óperunnar hafi fengið að viðgangast óútskýrður launamunur kynjanna. „Það hefur kannski ekki blasað við fyrr en nýlega því allir samningarnir hafa trúnaðarákvæði og þess vegna hefur fólk ekki verið að bera þetta mikið saman fyrr en á undanförnum misserum. Auðvitað hafa kvenkyns söngvarar lengi haft þennan grun, að þær hafi ekki fengið sömu kjör og karlkyns kollegar þeirra. En það hefur komið berlega í ljós,“ segir Ása.

Aðspurð hvort Óperan greiði körlum betur en konum segir Steinunn Birna svo alls ekki vera: „Alls ekki. Og við vísum þessu alfarð á bug. Það er bara hlutverk og starfsreynsla sem ræður ferðinni í launum listamanna sem syngja í okkar  uppfærslum. Svo þessi fullyrðing á ekki við rök að styðjast,“ segir hún.

Ólík viðhorf til nýs dóms

Klassís telur að samningar Íslensku óperunnar við söngvara séu gerviverktakasamningar. Vísað er til dómsmáls Þóru Einarsdóttur óperusöngkonu gegn Íslensku óperunni þar sem hún lét á það reyna hvort Óperunni bæri að fara að kjarasamningi við Félag íslenskra hljómlistarmanna og virða vinnuverndarákvæði. Óperan var sýknuð í málinu á fimmtudaginn og í dómnum segir að aðalatriðið sé að samningur Þóru við Óperuna hafi verið verksamningur. 

„Í þessum samningum er vísað í kjarasamninga milli FÍH og Íslensku óperunnar og það eru ákvæði í kjarasamningnum sem eru dæmd marklaus því það er litið á þetta sem verksamning. En þetta eru einu samningarnir sem Íslenska óperan hefur boðið upp á,“ segir Ása.  Hún segir að dómurinn staðfesti hversu ónýta samninga söngvurum hefur verið gert að skrifa undir:„Í krafti einokunarstöðu Óperunnar,“ segir hún. 

Steinunn segir að dómurinn staðfesti að Óperan hafi farið að lögum við samningagerð. „Og við viljum bara stofna til samtals við söngvara til að leggja drög að því hvernig samningamálum verður háttað í framtíðinni“ segir hún. 

Minnkandi aðkoma söngvara að stjórnun

Klassís gagnrýnir einnig minnkandi aðkomu söngvara að stjórn Óperunnar. Í yfirlýsingu félagsins segir að aðkoma söngvara að stjórn Óperunnar hafi áður verið mikil en sé nú engin. „Það stóð til að söngvarar kæmu inn í stjórn Íslensku óperunnar, en þá voru bara hafðar hraðar hendur og samþykktum breytt á lokuðum fundi,“ segir Ása.

Steinunn Birna segir að Íslenska óperan hafi verið stofnuð af söngvurum og því sé eðlilegt að henni hafi verið stjórnað af söngvurum lengi vel. „En eins og stjórnin er skipuð í dag þá hafa söngvarar jú oft setið í stjórn, ekki akkúrat núna, en það er á engan hátt einhver yfirlýsing um andstöðu við þá, nema síður sé,“ segir hún.

Lætur ásakanir ekki taka af sér kraft

Aðspurð hvað henni finnist um ásakanirnar og hvaða áhrif þær hafa á hennar stöðu segist Steinunn Birna ekki mega láta þær taka frá sér orku í störfum. „Það er margt spennandi sem ég mun einbeita mér að. Enda er ég hérna í ákveðnu hlutverki og reyni að sinna því eins vel og ég mögulega get. Þannig að mín persónulegu viðbrögð eru algjört aukaatriði,“ segir hún.