Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minningarathöfn um þau sem létust í Gjerdrum

11.01.2021 - 05:01
Minningarathöfn um þau tíu og ófæddan dreng sem fórust í náttúruhamförunum í Ask í Noregi var haldin í Gjerdrum kirkju 10. janúar 2021.
 Mynd: STIAN LYSBERG SOLUM / NTB
Minningarathöfn var haldin í Gjerdrum-kirkju á sunnudagsmorguninn til að minnast þeirra sem létust í náttúruhamförunum í Ask 30. desember síðastliðinn. Jafnframt var tilgangurinn að hugga hvert og eitt þeirra sem á um sárt að binda eftir atburðina.

Á vef norska ríkisútvarpsins er greint frá því að kveikt var á ellefu kertum í kirkjunni og ellefu nöfn lesin upp. Þeirra á meðal var nafn ófædda drengsins Isak Grymyr Jansen en öll fjölskylda hans fórst í hamförunum.

Sjö hafa fundist látin og þrjú til viðbótar eru talin af en hafa ekki enn fundist.  Jakob Furuseth, sóknarprestur í Gjerdrum flutti minningarorð og hvatti fólk til samstöðu á erfiðum tímum.

Erna Solberg forsætisráðherra var viðstödd athöfnina en Tone Trøen, forseti norska Stórþingsins tók til máls og sagði þungan harm kveðinn að Norðmönnum öllum.

Hún sagði heimili fólks eiga að vera öruggt skjól og því sé það alltaf sérlega þungbært þegar ógnir steðji að því. Gerist slíkt finnist fólki það berskjaldað og vanmáttugt.

Yfir þúsund þurftu að yfirgefa heimili sín eftir að jörðin gaf sig undan bænum Ask og fjöldi fólks missti allt sitt í hamförunum.