Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leikskólinn fluttur á gamalt dvalarheimili

11.01.2021 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Starfsemi leikskólans Leikholts í Skeiða og Gnúpverjahreppi var flutt um helgina vegna myglu sem greinst hefur í húsnæðinu. Fyrrum dvalarheimili sveitarinnar hefur fengið nýtt hlutverk og hýsir nú yngstu íbúa sveitarinnar.

Myglan greindist í leikskólanum skömu fyrir jólin og var þá hafist handa við að laga skemmdir og stúka af þá hluta hússins sem eru verst leiknir. Um helmingur starfsmanna hefur fundið fyrir einkennum vegna myglu í skólanum og hefur það haft áhrif á getu þeirra til að sinna störfum sínum. 

Strax varð ljóst að flytja þyrfti leikskólann úr húsnæðinu og voru nokkrir möguleikar til skoðunar, meðal annars hótel skammt frá sem stendur meira og minna autt. Það var þó ekki raunin að koma börnunum fyrir á hóteli, heldur setja þau á gamla dvalarheimili sveitarinnar á Blesastöðum. Starfsemi dvalarheimilisins var hætt fyrir nokkrum árum og hefur það verið notað í ferðaþjónustu undanfarin ár. Í tilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins segir að sjálfboðaliðar hafi unnið að flutningunum um helgina og að leikskólinn verði opnaður á nýjum stað á næstu dögum. 

Óvíst með tryggingar

Myglan er skæðust í eldri hluta hússins en einnig í nýrri hluta þess. Búist er við því að viðgerðir taki nokkra mánuði og kostnaður við þær liggja ekki fyrir en Kristófer Tómasson sveitarstjóri segir hann verða mikinn og að ekki séu líkur á því að tryggingar eða sjóðir komi þar að.