Landsliðið lagt af stað til Egyptalands

Mynd með færslu
Janus Daði Smárason, Ómar Ingi Magnússon, Ágúst Elí Björgvinsson og Kristján Örn Kristjánsson snæddu morgunverð í Leifsstöð í morgun. Mynd: - - HSÍ

Landsliðið lagt af stað til Egyptalands

11.01.2021 - 09:07
Íslenska karlalandsliðið í handbolta hélt í morgun af stað til Egyptalands þar sem liðið mun spila á heimsmeistaramótinu. HM hefst á miðvikudag en fyrsti leikur Íslands á mótinu verður við Portúgal á fimmtudagskvöld.

Íslenska liðið flýgur til Kaupmannahafnar. Þaðan fer liðið flugleiðis til Kaíró, höfuðborg Egyptalands og kemur þangað í kvöld. 20 leikmenn fóru með til Egyptalands auk þjálfarateymis og annarra starfsmanna. Þá eru þrír íslenskir fjölmiðlamenn með í för, þar af tveir frá RÚV, Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður og Óskar Þór Nikulásson myndatökumaður og framleiðandi. RÚV mun því fylgja íslenska liðinu vel eftir allt mótið.

Sem fyrr segir verður fyrsti leikur Íslands á HM á móti Portúgal. Leikurinn er á dagskrá RÚV klukkan 19:30 á fimmtudagskvöld. Ísland mætir svo Alsír á laugardagskvöld og Marokkó á mánudagskvöld í riðlakeppninni. Þrjú efstu liðin í riðlin komast áfram í milliriðil. Nánar má sjá leikjadagskrá Íslands hér.

Allir leikir Íslands á HM verða sýndir á RÚV og lýst í útvarpinu á Rás 2. Þá verður fjöldi annarra leikja á HM einnig sýndir á rásum RÚV. Hér má sjá yfirlit yfir þá.