Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kim Jong-un ber nú titilinn aðalritari

11.01.2021 - 02:12
epa08093382 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) on 29 December 2019 shows North Korean leader Kim Jong-un presiding over the Third Enlarged Meeting of the Seventh Central Military Commission of the Workers' Party of Korea, in Pyongyang, North Korea.  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: epa
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu ber ekki lengur titilinn formaður, heldur var ákveðið á yfirstandandi landsþingi Verkamannaflokksins í dag að hér eftir verði hann nefndur aðalritari.

Þetta tilkynnti ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu fyrr í dag, en faðir núverandi leiðtoga, Kim Jong-il bar sama titil. Hann hefur frá andláti sínu 2011 verið nefndur ódauðlegur aðalritari Norður-Kóreu. Kim Il Sung, afi núverandi leiðtoga, hefur verið ódauðlegur forseti frá því hann lést 1994.

Sérfræðingar telja að tilgangur breytingarinnar nú sé að tryggja og styrkja völd Kim Jong-uns. Hann var formlega kjörinn formaður á síðasta landsþingi Verkamannaflokksins fyrir fimm árum, sem þá var talin staðfesting á stöðu hans sem leiðtoga landsins.

Kim hefur heitið því að efla kjarnorkuvopnabúr landsins en viðurkennir jafnframt að efnahagsáætlun flokksins frá 2016 hafi ekki gengið sem skyldi. Landamæri Norður-Kóreu hafa verið algerlega lokuð frá því í janúar á síðasta ári til að bægja hættunni af kórónuveirufaraldrinum frá.