Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkjamenn skilgreina Húta nú sem hryðjuverkasamtök

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýsti því yfir síðdegis í gær að Hútar, samtök síja-múslíma, sem löngum hafa herjað á Jemen verði skilgreind sem hryðjuverkasamtök.

Hjálpar- og líknarsamtök óttast að þessi ákvörðun verði til að gera illt verra í stríðshrjáðu landinu. Langt er um liðið síðan fyrst var tekið að huga að skilgreinina Húta með þessum hætti.

„Ákvörðunin er tekin til að hægt verði að láta Húta standa reikningsskil gerða sinna. Þeirra á meðal eru árásir yfir landamæri, sem ógna mannslífum, innviðum landsins og ferðum fraktskipa," segir í yfirlýsingu Pompeos utanríkisráðherra. 

Hútar gerðu uppreisn gegn Abdrabbuh Mansur Hadi, þáverandi forseta landsins og lögðu höfuðborgina Sana undir sig í janúar 2015. Síðan þá hefur geysað borgarastyrjöld í Jemen.

Tugir þúsunda hafa fallið og stærstur hluti landsmanna þarf á mannúðaraðstoð að halda til að lifa af. Mat Barnahjálparsjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) er að hvergi sé ástandið verra af völdum stríðsátaka en í Jemen.