Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ár liðið frá fyrsta dauðsfallinu af völdum COVID-19

11.01.2021 - 19:35
Mynd: EPA-EFE / FEATURECHINA
Eitt ár er í dag liðið síðan tilkynnt var um fyrsta dauðsfallið af völdum COVID-19 í heiminum. Búist er við að hópur sérfræðinga á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar komist til Wuhan í vikunni til að rannsaka uppruna veirunnar.  

Talið er að fyrstu smitin megi rekja til Huanan-matarmarkaðarins í borginni Wuhan. Honum var í kjölfarið lokað. Fyrsta skráða andlátið vegna COVID-19 var lát rúmlega sextugs karlmanns sem var fastagestur á markaðnum. Það komu þó upp smit í upphafi sem ekki var hægt að tengja við markaðinn.

Í dag eru dauðsföllin á heimsvísu nær tvær milljónir og yfir níutíu milljónir hafa greinst með smit. Í fjölda ríkja eiga stjórnvöld enn í mikilli baráttu við að halda útbreiðslunni niðri. 

Sérfræðingar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eru væntanlegir til Wuhan á fimmtudag og ætla að freista þess að komast að því hver nákvæmlega var uppruni veirunnar. Áður þurfti að fresta för vísindamannanna eftir seinagang við afgreiðslu vegabréfsáritana til Kína.