Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þungur róður hjá sveitarfélögum

10.01.2021 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að erfitt ár sé framundan hjá mörgum sveitarfélögum á landinu. Staða þeirra hefur versnað hratt í faraldrinum.

 

Átta af tíu stærstu sveitarfélögum landsins reikna með hallarekstri á þessu ári samkvæmt fjárhagsáætlunum. Aðeins Akranes og Fjarðabyggð gera ráð fyrir að reksturinn skili afgangi.

Árið 2019 skiluðu tíu stærstu sveitarfélögin samanlögðum afgangi upp á rúma 22 milljarða. Samkvæmt bráðabirgðatölum nam hallareksturinn í fyrra fjórum og hálfum milljarði og stefnir í átta milljarða á þessu ári.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að staðan sé misjöfn eftir sveitarfélögum.

„Það er erfitt ár framundan. Ekki bara hjá sveitarfélögum heldur hjá öllum. Hvort sem það eru einkafyrirtæki eða hið opinbera,“ segir Aldís.

Hún telur þó ekki að þetta hafi áhrif á getu sveitarfélaga til að sinna lögbundnum verkefnum.

„Við höfðum áhyggjur af því að fjárfesting myndi dala í þessu ljósi en það er ljóst að flest sveitarfélög eru frekar að bæta í heldur en hitt þannig að sveitarfélögin og sveitarstjórnarmenn ætla að taka ábyrga afstöðu og halda uppi atvinnustigi með aukinni fjárfestingu. Sem aftur á móti er ljóst að verður að stórum hluta fjármögnuð með lánum sem mun reynast sveitarfélögum snúið þegar fram líða stundir,“ segir Aldís.

Stjórnvöld hafa reynt mæta þessum vanda sveitarfélaga með beinum og óbeinum aðgerðum. Aldís telur að meira þurfi að koma til á næstu misserum.

„Við erum í stöðugu samtali við ríkisstjórnina um stöðu sveitarfélaganna og þau hafa með undirritaðri yfirlýsingu lofað að standa með sveitarfélögunum þannig að við höfum fulla trú á því að það verði efnt,“ segir Aldís.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV