Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Reyna að koma prammanum á flot

10.01.2021 - 12:48
Fóðurprammi sökk
 Mynd: Landhelgisgæslan - Ljósmynd
Mikið annríki var hjá Björgunarsveitum á Austurlandi í gær vegna vonskuveðurs sem gekk yfir landshlutann. Hluta Neskaupstaðar var lokað vegna hættu sem stafaði af fljúgandi þakplötum og tveir björgunarmenn hlutu minniháttar meiðsl við störf sín.

25 metra langur og 12 metra breiður fóðurprammi, sem er í eigu Laxa fiskeldis, sökk á Reyðarfirði á fjórða tímanum í nótt. Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir líklegt að sjór hafi komist inn í loftgöt á vélarrýminu.

„Það sem virðist hafa gerst er að ísing hafi farið að hlaðast utan á prammann seinni partinn og hann byrjað að taka inn á sig sjó,“ segir Jens.

Enginn var um borð í prammanum og ekki er talið að öðrum sæfarendum stafi hætta af honum þar sem hann liggur á hafsbotni á um 40 metra dýpi, ekki langt frá landi. Jens segir jafnframt að hvorki eldfiskum né kvíum hafi stafað hætta af og engin svartolía verið um borð.

Varðskipið Þór var kallað til aðstoðar við björgunar- og mengunarvarnaraðgerðir og er það enn á slysstað ásamt björgunarsveitum.

„Það eru kafarar frá köfunarþjónustunni mættir á svæðið og það verður bara metið í dag hvort það verði kafað niður á pramann í dag eða hvort það verði gert núna þegar veðrið lægir aftur,“ segir Jens.

Þá komst sjór inn í annan pramma við Fáskrúðsfjörð á sjöunda tímanum í morgun. Slökkviliðinu tókst að koma í veg fyrir að hann sykki með því að dæla sjónum úr honum í tæka tíð.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV