Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Pence ætlar að mæta á innsetningarathöfn Bidens

epa08924151 Vice President Mike Pence reads the final certification of Electoral College votes cast in November's presidential election during a joint session of Congress after working through the night, at the Capitol in Washington, DC, USA, 07 January 2021. Violent protesters loyal to President Donald Trump stormed the Capitol, disrupting the process.  EPA-EFE/J. Scott Applewhite / POOL  POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hyggst vera viðstaddur þegar þau Joe Biden og Kamala Harris verða sett í embætti forseta og varaforseta þann 20. þessa mánaðar. Þetta hafa fréttastofur eftir háttsettum en ónafngreindum embættismanni í Washington.

Pence stýrði sameiginlegum fundi beggja deilda Bandaríkjaþings á miðvikudag þar sem til stóð að staðfesta formlega kjör Bidens, eins og lög og hefðir mæla fyrir um. Nokkur töf varð þó á þessum hátíðlega gjörningi vegna hóps af æstu stuðningsfólki Donalds Trumps, sem réðist inn í þinghúsið til að freista þess að stöðva athöfnina.

Nokkru eftir að lögregla hafði rýmt þinghúsið var fundi haldið áfram og um lágnættið, þegar atkvæði kjörmanna allra 50 ríkjanna höfðu verið talin, gerði Pence skyldu sína og lýsti Biden réttkjörinn forseta Bandaríkjanna. Trump hafði áður krafist þess af Pence að hann neitaði að staðfesta kjör Bidens, þrátt fyrir að varaforsetinn hefði hvorki völd né lögmætar ástæður til þess.

Trump mætir ekki

Trump lýsti því yfir á föstudag að hann hygðist ekki mæta á innsetningarathöfn eftirmanns síns. Biden sagðist feginn því að Trump ætlaði ekki að mæta en tók fram að hann myndi að sama skapi fagna því, ef Mike Pence myndi þekkjast boðið um að vera viðstaddur athöfnina.

Fátítt er að fráfarandi forsetar mæti ekki á innsetningarathöfn eftirmanna sinna. Það gerðist síðast árið 1974, þegar Richard Nixon, sem þá hafði hrökklast úr embætti vegna brota í embætti, lét ekki sjá sig á innsetningarathöfn varaforseta síns, Geralds Fords.