Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Níu handteknir í mótmælum gegn sóttvarnaaðgerðum

10.01.2021 - 00:36
Mótmæli gegn sóttvarnaráðstöfunum danskra stjórnvalda á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn að kvöldi 9. ja´núar 2021. Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu og voru fjórir handteknir áður en mótmælin leystust upp.
 Mynd: P. Davali - DR
Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í Kaupmannahöfn og Álaborg að kvöldi laugardags og voru níu mótmælendur handteknir áður en yfir lauk. Hópur fólks sem kallar sig „Men in Black" blés til mótmælafunda á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn og miðborg Álaborgar til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda vegna kórónaveirufaraldursins.

Á Facebook-síðu hópsins er því lýst yfir að félagar í honum hafi „fengið nóg af tilviljanakenndum lokunum í landinu" og séu orðnir þreyttir af „skyndiinnleiðingu laga án nokkurrar lýðræðislegrar aðkomu þjóðarinnar, sem hafa svo afgerandi afleiðingar fyrir framtíð svo stórs hluta þjóðarinnar að það ætti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þá."

Vildu „Frelsi fyrir Dani"

Á þriðja hundrað manns safnaðist saman á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn, í trássi við gildandi og strangt samkomubann. Eftir nokkur ræðuhöld gengu mótmælendur fylktu liði áleiðis að Strikinu, kyrjuðu kröfu um „Frelsi fyrir Dani og Danmörku“ og köstuðu hvorutveggja flöskum og flugeldum á göngunni.

Fjölmennt lögreglulið dró þá fram kylfur sínar, þvingaði mótmælendur aftur inn á Ráðhústorgið og skipaði þeim að hverfa til síns heima. Skipuleggjendur mótmælanna lýstu því þá yfir að aðgerðum væri lokið, en engu að síður kom til talsverðra ryskinga milli lögreglu og mótmælenda áður en um hægðist að lokum.

Fjórir voru handteknir fyrir óspektir, en tvennum sögum fer af því hvort þeir tilheyri hinum svartklæddu mótmælendum eða ekki.

Færri mótmælendur en fleiri handtökur í Álaborg

Fimm voru handteknir í tengslum við svipaða en öllu fámennari samkomu í Álaborg. Þar söfnuðust nokkrir tugir mótmælenda saman í miðborginni af sama tilefni undir merkjum Men in Black. Mikið var um flugeldaskothríð og brot á reglum um fjöldasamkomur, líkt og í höfuðborginni, og sló í brýnu milli lögreglu og hluta mótmælenda áður en mótmælin leystust upp.