Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Japarov tilkynnir sigur í forsetakosningnum í Kirgistan

epa08929617 Presidential candidate Sadyr Japarov (L) reacts after casting his ballot during the presidential elections in Bishkek, Kyrgyzstan, 10 January 2021.Kyrgyzstan holds its presidential elections and a referendum on the form of government.  EPA-EFE/IGOR KOVALENKO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sadyr Japarov hefur lýst yfir sigri í forsetakosningum í Miðasíulýðveldinu Kirgistan í dag. Hann er með nærri áttatíu prósent atkvæða þegar nær öll atkvæði hafa verið talin.

Þetta eru fyrstu kosningarnar í Kyrgistan eftir mótmælaöldu í haust vegna umdeildra kosninga, en spilling hefur lengi verið landlæg í stjórnmálum í landinu. Samhliða kosningunum var þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar sem veita forsetanum aukin völd.

Ólga braust út í landinu þegar daginn eftir þingkosningar í landinu 4. október síðastliðinn. Stjórnmálaflokkar sem lutu í lægra haldi fullyrtu að sigurvegar kosninganna hefðu keypt sér stuðning, einkum átti það við um flokka hliðholla þáverandi forseta Sooronbay Jeenbekov. 

Mótmælin stigmögnuðust þann dag og einn mótmælandi féll í átökum við lögreglu. Nokkrir framámenn í stjórnmálum landsins voru leystir úr fangelsi, þeirra á meðal Japarov og Almazbek Atambayev, fyrrverandi forseti landsins. 

Stuðningsmenn Japarovs höfðu uppi háværa kröfu um afsögn Jeenbekovs forseta, þrátt fyrir að niðurstöður þingkosninganna hefðu fljótlega verið ógiltar.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti heimsótti Kirgistan til viðræðna við Japarov og Jeenbekov forseta. Jeenbekov sagði loks af sér fáeinum dögum síðar, til að koma í veg fyrir blóðbað í landinu.

Þing landsins kaus Japarov sem forsætisráðherra um miðjan október en þeirri stöðu gegndi hann fram í nóvember þegar hann tók til við að undirbúa framboð sitt til forseta.

Búist er við að stjórnarskrárbreytingar verði einnig samþykktar í kosningunum í dag og að þær taki gildi síðar á þessu ári. Vinna við stjórnarskárbreytingar taka nú við og stefnt er að þjóðaratkvæðagreiðslu um þær í júní næstkomandi.

Líklegt þykir að með stjórnskrárbreytingunum verði forseta landsins heimilað að sitja fleiri en eitt kjörtímabil, sem var afnumið 2010 til að koma í veg fyrir valdboðshneigð.