Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hver klúðraði: Cavani eða knattspyrnusambandið?

Mynd: - / EPA/Hafliði Breiðfjörð

Hver klúðraði: Cavani eða knattspyrnusambandið?

10.01.2021 - 09:00
Margir hafa mikla unun af því að ræða og rífast um fótbolta. Undanfarið hefur þó minna verið rætt um boltafimi og meira um orðfæri þegar kemur að úrúgvæska leikmanninum Edinson Cavani sem hlaut þriggja leikja bann fyrir kynþáttaníð á samfélagsmiðli. Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður segir að menningarmunur hafi orðið til þess að Cavani var refsað að ósekju.

Þegar hinn 32 ára gamli Edinson Cavani skoraði sigurmark Manchester United í uppbótartíma rigndi yfir hann hrósi á samfélagsmiðlum. Eftir leik fór hann á Instagram og deildi áfram því sem fólk hafði að segja um markið. Þegar hann deildi einni færslunni skrifaði hann „gracias negrito“.

Þegar Cavani var gerð grein fyrir því að orðið „negrito“ gæti verið niðrandi eyddi hann færslunni en það var of seint. Enska knattspyrnusambandið brást ókvæða við, setti hann í þriggja leikja bann og sektaði hann um 100 þúsund pund. Þeirri ákvörðun hefur ekki verið vel tekið í Suður-Ameríku.

Orðið negro þýðir svartur og ito er smækkunarending. Það mætti þýða sem litli svarti einstaklingur, svarti litli eða litla N-orð og allar þýðingarnar væru tæknilega séð réttar, þó rasisminn sem við skynjum í orðunum vegna menningartengsla okkar tungumáls fari stigvaxandi milli þýðinga.

Í yfirlýsingu frá úrúgvæsku leikmannasamtökunum segir að þar í landi sé notkunin á orðinu almenn og notuð í ástúðlegum tilgangi við vini eða aðra nána. Samtökin halda því fram að úrskurðurinn brjóti gegn úrúgvæsku þjóðinni og menningu hennar. Þar sem hann sé einungis ákvarðaður út frá sjónarhóli enska knattspyrnusambandsins sé hann í sjálfu sér kynþáttamismunun þar sem ekki sé litið til merkingar  í öðrum menningarheimum. Hvert atvik beri að skoða fyrir sig og út frá sjónarhóli þeirrar menningar sem það á við um.

Annað fordæmi

Það eru ekki aðeins úrúgvæskir knattspyrnumenn sem hafa lagst gegn aðgerðum enska knattspyrnusambandsins, heldur einnig málnefnd Úrúgvæja sem telur ótilhlýðilegt að Englendingar vegi að málfrelsi Úrúgvæja á þeirra eigin tungumáli.

„Edinson Cavani gerði í raun og veru ekkert af sér. Hann er bara að tala sitt tungumál og það má alveg spyrja sig hvort það sé eðlilegt fyrir enska knattspyrnusambandið að skipta sér af einkalífi fólks. Hann var ekki að segja þetta við leikmann eða í leik. Hann var að segja þetta við vin sinn mögulega, að minnsta kosti aðdánda,“ segir Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður. Enn er á huldu hvort einhver tengsl séu á milli Cavani og þess sem kveðjunni var kastað á.

„Aðdáandinn var meira en lítið upp með sér. Hann var ekkert að skipta sér af þessu og mögulega var þetta það besta sem kom fyrir hann á árinu 2020, að fá þessa kveðju tilbaka. Þetta var bara kærleikskveðja. En það er náttúrulega fordæmi fyrir þessu orði, frá hinum Úrúgvæjanum, sem var notað í allt öðru samhengi,“ segir hann og vísar til máls Luis Suárez sem hlaut átta leikja bann og sekt fyrir að nota orðið í samskiptum við annan leikmann meðan á leik stóð. Cavani hefði því mátt átta sig á því að orðið væri illa séð.

Kynþáttahatur útbreitt og mikið vandamál í íþróttinni

„Þetta er heimur sem við skiljum ekkert og þess vegna er furðulegt að hvítir karlar í jakkafötum í einhverjum Winchester-stólum í enska knattspyrnusambandinu séu að skipta sér af þessu,“ segir Tómas. „En að sjálfsögðu þarf að gera það því þetta er náttúrlega stórkostlegt vandamál, það er að segja rasismi á Englandi, í fótboltanum og í kringum hann og það sem fólk leyfir sér að skrifa á samfélagsmiðla um leikmenn, þjálfara, sérfræðinga, og aðallega leikmenn samt er hreinn og beinn viðbjóður.“

Þó enska knattspyrnusambandið geti valið að taka tillit til þess hver merking orða Cavanis var neyðist það til að vinna með sitt eigið menningarsamhengi í sínum eigin menningarheimi þar sem nauðsynlegt er að bæta aðstæður fyrir ákveðna hópa fólks og þá þarf menningarsamhengi einstaklingsins að lúta í lægra haldi.

Þörf á markvissari fræðslu meðal leikmanna 

„Cavani, eins og Bernardo Silva, var sendur í fræðslu um hvernig á að haga sér. En þar er í raun og veru stærsta vandamálið sem knattspyrnuspekingar og fræðimenn á Bretlandseyjum hafa bent á,“ segir Tómas. Þörf sé á forvörnum frekar en eftirvirkum aðgerðum þegar leikmenn hvaðanæva að úr heiminum koma inn í deildina. 

„Þú ert að raða þarna inn hundruðum leikmanna úr alls konar menningarheimum. Þegar þeir koma í deildina verðurðu að útskýra fyrir þeim strax hvernig landið liggur. Af því að það er ósanngjarnt gagnvart strákum eins og Cavani og mögulega Suarez og fleirum, sem halda að þeir séu ekkert að brjóta af sér. Síðan missa þeir leiki og eru sektaðir um tugi milljóna fyrir þetta.“

Tómas segir að það sárvanti einhvers konar forvarnir sem kæmu mögulega í veg fyrir að slíkt gerist. „Þegar leikmenn eru að koma í deildina úr öðrum menningarheimi en á Englandi, að þeir  fái kennsluna þá og þegar. Þá er hægt að segja, ef þeir brjóta af sér, heyrðu vinur yfir hverju ertu að kvarta núna, það var búið að segja þér hvernig þetta er.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Tómas Þór Þórðarson í Lestinni á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Segja ákvörðun enska sambandsins kynþáttamismunun

Fótbolti

Cavani í þriggja leikja bann eftir færslu á Instagram

Fótbolti

Cavani kom sér í vandræði á samfélagsmiðlum