Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Heilsugæslan gerði allt til að fólk kæmist úr landi

Heilsugæslan setti hreinlega í fluggírinn um helgina þegar það verkefni að taka sýni úr um 600 Danmerkurförum rataði inn á borð til hennar. Nýjar sóttvarnareglur hafa nú tekið gildi í Danmörku sem kveða á um að þangað komi enginn nema með vottorð um að vera ekki með Covid-19. Flugsamgöngur við umheiminn eru í lágmarki. 

Greiða fyrir útprentað vottorð

Farþegar á leið til Kaupmannahafnar þurfa nú að framvísa vottorði, sem má ekki vera eldra en sólarhringsgamalt. Þetta bar brátt að, heilsugæslan frétti fyrst af nýju reglunum síðdegis á föstudag og allt var gert til að útvega farþegum vottorð. Ekki var tekið gjald fyrir skimunina sjálfa en fyrir útprentað vottorð á Læknavaktinni þurfti fólk að greiða tæpar sex þúsund krónur, og fyrir komu til heilsugæslulæknis utan dagvinnutíma þurfti að greiða rúmar þrjú þúsund krónur. Flestir þeirra sem áttu bókað flug til Kaupmannahafnar í morgun með Icelandair komu á völlinn með vottorð í vasanum, en þeir örfáu sem ekki höfðu móttekið skilaboðin frá flugfélaginu fengu að breyta flugi sínu. 

Slípa verkferla á morgun

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins annar því að taka þessi viðbótarsýni eins og er og spítalinn hefur næga getu til að rannsaka þau. Það getur þó aukið álag að fólk þurfi að koma á heilsugæsluna til að fá vottorð. Best væri ef hægt væri að afgreiða vottorðin rafrænt. Heilsugæslan fundar um framhaldið á morgun og ræðir við stjórnvöld um hvernig best sé að slípa ferlið til.

Áætlunin nær örfáa daga fram í tímann

Það ríkir mikil óvissa í flugheiminum og því er flugáætlun Isavia aðeins birt örfáa daga fram í tímann. Á morgun, mánudag eru tvær ferðir á áætlun, Icelandair flýgur til Kaupmannahafnar og Wizz Air til Katowice í Póllandi. Á þriðjudag eru áætlaðar þrjár farþegaferðir frá landinu; Icelandair flýgur til Kaupmannahafnar, Wizz Air til Varsjár og Air Baltic til Riga í Lettlandi. 

Fljúga um 12 ferðir á viku

Ferðavilji er lítill og flugtengingar Íslands við umheiminn í algeru lágmarki. Starfsemi Icelandair færist nú í svipað horf og fyrir jólavertíðina. Icelandair hyggst fljúga reglulega til fjögurra áfangastaða. Næstu tvær vikur verða farnar um sex til sjö ferðir á viku til Kaupmannahafnar, tvær ferðir á viku til Amsterdam, tvær til London og í gær gerðu stjórnvöld nýjan samning við félagið um að halda uppi Ameríkuflugi til Boston að minnsta kosti tvisvar í viku, út marsmánuð.