Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Flak indónesísku flugvélarinnar staðsett
10.01.2021 - 11:57
Leit stendur enn yfir að flaki flugvélar indónesíska flugfélagsins Sriwijaya Air sem hrapaði í sjóinn skammt frá Jakarta í gærmorgun, um fjórum mínútum eftir að hún tók á loft þaðan. Talið er víst hvar það er, en boð berast frá svörtum kössum vélarinnar semr fundust í morgun.
Vonast er til þess að upplýsingarnar úr kössunum varpi ljósi á hvað varð til þess að vélin, sem var af gerðinni Boeing 737-500 hrapaði. Kafarar vinna nú að því að koma kössunum í land.
62 voru um borð í vélinni, allir voru Indónesar og þar af voru tíu börn.
Í nótt fundu björgunarsveitir brak og ýmsa hluti úr vélinni. Líkamsleifar fimm manna hafa fundist.
Indónesísk flugfélög eru almennt neðarlega á listum yfir öruggustu flugfélögin, og var fyrir rúmum áratug bannað að fljúga inn í evrópska og bandaríska lofthelgi því flugmálayfirvöld þar sinntu ekki nægilega vel eftirliti með farþegavélum í landinu. Banninu var svo aflétt fyrir tveimur árum.