Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varð alelda skömmu eftir brotlendingu á Skálafelli

09.01.2021 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Einkaflugvélin sem brotlenti á Skálafelli í september fyrir tveimur árum varð alelda á skömmum tíma. Eldurinn kviknaði skömmu eftir að vélin skall í jörðina en flugmanninum tókst að komast út úr flakinu. Klukkustund leið þar til flugmanninum var bjargað og má það meðal annars rekja til þess neyðarboð gáfu til kynna að vélin hefði verið um 1,5 kílómetra frá slysstað. Leit hófst því við Móskarðshnjúka. Talið er að neyðarsendir vélarinnar hafi brunnið áður en uppfærð staðsetningarmerki fengust.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í dag. Í skýrslunni kemur fram að flugmaðurinn hafi beðið aðstoðar á snæviþöktu yfirborði svo hann sæist betur. 

Í skýrslunni er aðdragandinn að slysinu rakinn. Flugmaðurinn ætlaði að fljúga frá flugvellinum í Mosfellsbæ, um Þingvelli og lenda svo á flugvellinum í Reykjavík til að fylla á eldsneytistanka.  Eftir flugtak í Mosfellsbæ ákvað hann að kanna aðstæður til lendingar á Skálafelli þar sem hann hafði lent nokkrum sinnum áður.

Hann flaug eftir vegslóða sem var snæviþakinn á köflum og lét hjól vélarinnar snerta hann aðeins. Skömmu síðar fékk hann hins vegar skyndilegan vind undir vinstri væng og lyftist vængurinn þá snögglega. Hann reyndi að leiðrétta það en vélin leitaði til hægri, beint niður og skall í jörðina. Nefndin telur að líklegur hraði hafi verið um 55 mílur á klukkustund en það er í kringum 90 kílómetra hraði á klukkustund.

Ummerki á slysstað bentu til þess að eftir að hægri vængurinn rakst í jörðina hafi nef vélarinnar farið í jörðina og hún endastungist áður en hún stöðvaðist. Fyrstu ummerki um reyk frá slysstað sáust á myndbandsupptöku klukkan 14:56 eða þremur mínútum eftir að neyðarboð bárust. 

Fram kemur í skýrslunni að eftir að flugvélin skall í jörðina hafi kviknað eldur en flugmanninum tókst að forða sér. Vélin varð síðan alelda á skömmum tíma og brann upp að mestum hluta.

Rannsóknarnefndin telur þessi sterki vindstrengur sem lyfti vinstri væng vélarinnar hafi orðið til þess að flugmaðurinn missti stjórn á flugvélinni. Þá beri einnig að horfa til þess að vélinni hafi verið flogið hægt og nærri klettabrún. 

Nefndin nefnir sömuleiðis að leit hafi fyrst hafist á Móskarðshnjúkum þar sem fyrstu boð bentu til þess að vélin væri þar.  Þetta megi rekja til þess neyðarsendir vélarinnar brann áður en uppfærð og leiðrétt staðsetningarmerki fengust.  Flugmaðurinn fannst því ekki fyrr en nærri klukkutíma eftir slysið.