Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Trump og Twitter takast á

epa08927298 (FILE) - US President Donald J. Trump is seen delivering remarks via Twitter about the violence at the US Capitol on a television screen in the Brady press briefing room at the White House in Washington, DC, USA, 06 January 2021 (reissued 08 January 2021). Twitter announced on 08 January 2021 that it has permanently suspended US President Donald J. Trump's Twitter account 'due to the risk of further incitement of violence'. The move comes after various groups of President Trump's supporters broke into the US Capitol in Washington, DC and rioted as Congress met to certify the results of the 2020 US Presidential election.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, brást við lokun á Twitter-aðgangi sínum með því að gagnrýna fyrirtækið harðlega á opinberum Twitter-aðgangi forsetaembættisins. Twitter brást við skjótt og eyddi færslunum og hefur nú líka lokað Twitter-aðgangi kosningateymis forsetans. Trump boðar nú mögulega stofnun eigin samfélagsmiðils.

Trump hefur löngum átt í nánu en stormasömu ástar-haturssambandi við Twitter. Hann hefur gagnrýnt fyrirtækið harðlega fyrir að misnota yfirburðastöðu sína á markaði, rétt eins og Facebook, Apple og fleiri stórfyrirtæki á sviði hátækni og samskipta. Samtímis hefur þessi tiltekni samfélagsmiðill verið mikilvægasti vettvangur forsetans til að eiga í samskiptum við stuðningsfólk sitt og þar hefur hann ósjaldan birt tugi færslna á sólarhring um flest á milli himins og jarðar.

Nær 89 milljónir fylgjenda

Fylgjendur forsetans á þessum vettvangi voru nær 89 milljónir talsins þegar stjórnendur Twitter tilkynntu í gær að aðgangi hans, @realDonaldTrump, hefði verið lokað til frambúðar, þar sem hætta var talin á að hann yrði notaður til að hvetja til frekari ofbeldisverka. Var vísað í atburði miðvikudagsins, þegar æstur múgur réðist til inngöngu í þinghúsið í Washington, ekki síst fyrir áeggjan forsetans.

Þá strax var aðgangi forsetans lokað í tólf tíma. Þegar hann var opnaður á ný birti Trump tvær færslur, sem öryggisteymi Twitter taldi líklegar til að hvetja æstustu áhangendur hans til að höggva í sama knérunn í aðdraganda valdaskiptanna. Því var gripið til þessarar róttæku aðgerðar, segir í skýringu Twitter á lokuninni.

Sakar Twitter um samsæri með Demókrötum og „Öfga-vinstrinu"

Trump mislíkaði þetta inngrip stórlega og birti færslu á Twitteraðgangi forsetaembættisins, @POTUS, þar sem hann sakaði fyrirtækið um að makka með pólitískum andstæðingum sínum til að þagga niður í honum.

„Twitter hefur gengið lengra og lengra í því að hefta tjáningarfrelsið, og í kvöld hefur starfsfólk Twitter lagst á eitt með Demókrötunum og Öfga-vinstrinu með því að fjarlægja aðgang minn að miðlinum til að þagga niður í mér - og YKKUR, þessum 75.000.000 stórkostlegu föðurlandsvinum sem kusuð mig," skrifaði hann undir merkjum @POTUS.

Twitter eyddi færslunni skömmu síðar og sagði í tilkynningu að það gengi gegn stefnu og skilmálum fyrirtækisins, að aðili sem útilokaður hefði verið frá þjónustu þess nýti sér annan aðgang til að halda uppteknum hætti.

Boðar samstarf við aðra miðla og mögulega stofnun eigin samfélagsmiðils

Trump birti sama boðskap á formi fréttatilkynningar frá Hvíta húsinu, og tjáði fylgjendum sínum að þeir gætu brátt fylgst með orðum hans og gjörðum á nýjum vettvangi. „Við höfum átt í viðræðum við ýmsa aðra miðla og komum með stóra tilkynningu bráðum, og við erum líka að skoða möguleikana á því að byggja upp okkar eigin vettvang í nánustu framtíð. Við látum ekki ÞAGGA NIÐUR í okkur!" skrifaði forsetinn.

Síðasta útspil Twitter í þessum slag - í bili að minnsta kosti - var svo að loka Twitter-aðgangi kosningateymis forsetans, @TeamTrump, vegna brota gegn notendaskilmálum fyrirtækisins.