Appelsínugular viðvaranir hafa verið í gildi á öllum austurhelmingi landsins í dag enda hefur veðrið verið með versta móti þar; norðvestanstormur eða rok. Veðrið hefur verið einna verst í Neskaupstað, eins og sjá má á myndum í myndskeiðinu hér að ofan sem Hjalti Stefánsson tók.
„Þetta er óvenju hvasst, ég man ekki eftir svona löngum kafla í nokkur ár að minnsta kosti. Þetta hefur nú gerst áður en þetta er vond vindátt, þessi norðvestan átt hérna, og hvöss núna,“ segir Sveinn Halldór Oddsson Zoëga, sem er í björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað.
„Einn félagi í björgunarsveitinni er með vindmæli hérna yst í bænum og hann fór í 53 metra í morgun þannig að það er töluvert í hviðum.“
Vindurinn mældist mestur 64 metrar, það var í vindmælinum við Streiti.
Björgunarsveitarmenn meiddust
Björgunarsveitir voru kallaðar út víða á Austurlandi í dag, meðal annars á Seyðisfirði og Djúpavogi. Það mæddi hvað mest á björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað.
„Það eru þessi hefðbundnu óveðursútköll, það eru garðkofar, þakplötur, og svo var havarí á smábátahöfninni.“
„Það voru bátar að losna og skemmast eitthvað, ég held að það sé búið að koma því fyrir vind.“
Tveir björgunarsveitarmenn hlutu minniháttar meiðsl við störf sín í dag; einn í Neskaupstað og annar á Djúpavogi. Síðdegis var svo ákveðið að loka fyrir umferð um hluta Neskaupstaðar, meðal annars hafnarsvæðinu, þar sem hætta stafaði af fjúkandi þakplötum. Sveinn segir ljóst að eitthvert tjón hafi orðið í óveðrinu.
„Þetta eru rúður og bílar skemmdir og eins og ég segi, garðkofar og skjólveggir og svoleiðis. Þetta eru tjón en ekkert stórvægilegt,“ segir Sveinn Halldór.