Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir raunhæft að Ísland klári bólusetningar í sumar

Mynd með færslu
 Mynd: NRK - RÚV
Það er raunhæft markmið að Ísland, Svíþjóð og Noregur verði búin að klára að bólusetja um mitt sumar. Þetta segir Richard Bergström, yfirumsjónarmaður bóluefnamála í Svíþjóð, í samtali við fréttastofu. Bergström segir að þótt það gangi hægt að fá bóluefni til landsins núna verði miklar breytingar á því strax í mars.

Bergström er hálfgerður umboðsmaður bóluefna fyrir Ísland, Svíþjóð og Noreg en hann á sæti í samninganefnd framkvæmdastjórnar ESB um bóluefni. Hann hefur verið áberandi í Noregi að undanförnu þar sem sömu spurningar hafa brunnið á vörum landsmanna og hér; hvenær kemur bóluefni og hvenær verður búið að bólusetja?

Bóluefnið miðast við höfðatölu

Bergström er nokkuð afdráttarlaus í svari sínu við þeirri spurningu þegar hann ræddi við fréttastofu í morgun. „Það er raunhæft markmið að Ísland, Noregur og Svíþjóð verði búin að bólusetja um mitt sumar.“

Bergström er búsettur í Sviss og segir að það sé auðvelt að reikna út hversu mikið bóluefni berist til Íslands á næstunni; þetta fari einfaldlega eftir höfðatölu. Ísland fái til að mynda 6,8 prósent af því bóluefni sem Norðmenn fái. 

Í mars sé þannig áætlað að Ísland fái 68 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca, rúmlega tuttugu þúsund skammta af bóluefni Pfizer og rúmlega 2.700 skammta af bóluefni Moderna.

Bergström bendir samt á að Ísland sé fámennt ríki og langt í burtu. Það geti þýtt að bóluefni berist kannski ekki í hverri viku eins og í Noregi heldur frekar hálfsmánaðarlega. Þá séu líka takmörk fyrir því hversu lítið af bóluefni er hægt að senda hverju sinni. Viðmiðið sé til að mynda einn kassi af bóluefni Pfizer. Í því samhengi er hægt að rifja upp að Ísland fékk  tvo kassa frá Pfizer í fyrstu sendingunni í lok desember. Tæplega fimm þúsund voru þá bólusettir en alls bárust 9.750 skammtar til landsins.

Framleiðslugeta Pfizer tvöfaldast í mars

Bergström tekur samt skýrt fram að það sé tryggt að Ísland fái jafn mikið og önnur lönd í hverjum mánuði eftir höfðatölu. Og rétt að hafa í huga að til að bóluefnin veiti fulla vörn þarf tvær sprautur með 21 dags millibili.   

Bergström nefnir sömuleiðis að framleiðslugeta Pfizers eigi eftir að tvöfaldast og mögulega þrefaldast í mars.  Gangi allt upp geti Ísland fengið 20 þúsund skammta af bóluefninu í þeim mánuði sem þýðir einn kassi í viku hverri.

Í gær bárust svo fréttir af því að AstraZeneca gæti mögulega fengið skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu í lok þessa mánaðar. Og að Evrópusambandið hefði gert viðbótarsamning við lyfjaframleiðandann Pfizer um kaup á tvöfalt fleiri skömmtum en fyrri samningar kváðu á um.

Bergström er á því að AstraZeneca eigi að fá skilyrt markaðsleyfi í lok mánaðarins en stóru tíðindin séu samningur Evrópusambandsins og Pfizer sem tilkynnt var um í gær.  Hann er upp á 300 milljónir skammta og þar af eiga 75 milljónir að berast fyrir sumarið.  

Hann segir að þetta þýði líka að löndin eigi bóluefni upp á hlaupa fyrir haustið og veturinn þar sem það geti reynst nauðsynlegt að veita smá „búst,“ eins og hann kemst að orði. Hugsanlegt sé að einhver bóluefni veiti ekki jafn mikla vörn og því geti þurft að gefa aðra sprautu.

Ódýrari bóluefni á leiðinni

Hann telur að það verði engu að síður jákvætt þegar AstraZeneca fái sitt leyfi. „Því það kemur mikið af því og það kemur snemma.“ Og svo sé það ódýrara.

Hann nefnir sömuleiðis bóluefni Johnson & Johnson sem er í þróun. Heppnist það vel geti það skipt sköpum í baráttunni við faraldurinn á heimsvísu því aðeins þurfi eina sprautu af því.   Fyrirtækið hafi þegar lýst því yfir að hver skammtur muni kosta tíu dollara. „Og skammturinn frá AstraZeneca verður ódýrari en það.“

Bergström hefur mikla reynslu úr lyfjaheiminum og segist ekki vilja tala um þetta sem bóluefnakapphlaup heldur miklu frekar kapphlaup við klukkuna. „Fyrirtækin líta ekki svo á að þau séu í einhverri keppni þótt því fylgi auðvitað stolt að vera fyrstur og vera með bestu vörnina. En allir vinna því eftirspurnin er til staðar.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV