Mikilvægt að fara varlega í tilslakanir á sóttvörnum

09.01.2021 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Thor Aspelund prófessor í líftölfræði segir mikilvægt að fara varlega í öllum tilslökunum á sóttvörnum. Reynslan sýni að smitum fjölgi um leið og dregið sé úr sóttvörnum.

 

Heilbrigðisráðherra kynnti í gær tillögur að breytingum á sóttvörnum sem eiga að taka gildi á miðvikudag. Slakað verður á fjöldatakmörkunum og mega tuttugu koma saman í stað tíu. Skíðasvæði og líkamsræktarstöðvar fá að opna á ný með ströngum skilyrðum og þá geta íþróttaleikir farið fram án áhorfenda.

Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands segir að staðan sé almennt góð hér á landi og smitum hafi ekki fjölgað mikið eftir jól- og áramót líkt og óttast var að myndi gerast. Hann segir hins vegar að þegar slakað sé sóttvörnum aukist líkur á smitum.

„Það er auðvitað miðað við reynsluna sem hefur byggst upp á síðustu misserum. Kannski höfum við lært meira á þetta með tímanum en það verður auðvitað að koma í ljós. Þarna er ákveðin hætta á aukningu um leið og allt fer af stað í einu. Skólar eru að opna og það er verið að slaka á fjöldatakmörkunum og svo framvegis. Þannig að þetta vinnur allt saman við að geta aukið fjölda smita,“ segir Thor.