Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Metár í íslenskri kvikmyndagerð

Mynd: Saga Film / Aðsent

Metár í íslenskri kvikmyndagerð

09.01.2021 - 19:40

Höfundar

Allt stefnir í metár í íslenskri kvikmyndagerð 2021 og að fleiri kvikmyndir og þáttaraðir verði frumsýndar á árinu en nokkru sinni fyrr. Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir að kórónuveiran hafi sín áhrif.

Það er óhætt að segja að það sé mikil gróska í íslenskri kvikmyndagerð um þessar mundir. Fjölmörg verk hafa verið í framleiðslu að undanförnu, bíómyndir, sjónvarpsþáttaraðir og heimildarmyndir. Samkvæmt samantekt á kvikmyndavefnum Klapptré stefnir allt í að 13 íslenskar bíómyndir verði frumsýndar á árinu, auk átta sjónvarpsþáttaraða. Þá eru rúmlega 30 heimildarmyndir í framleiðslu.

„Já, þetta er meira en venjulega,“ segir Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. „En það er ein breyta í þessu sem við vitum ekki alveg hver verður, og það er veiran, hvort það verði hægt að frumsýna þetta allt saman. Sumt af þessu hefur beðið frá því í fyrra. En þetta er óvenju stór og mikið, og flott verkefni.“

Alþjóðlegt hjól

Laufey segir að nokkrar ástæður séu fyrir þessari miklu framleiðslu. Stjórnvöld hafi veitt sérstakt fjármagn til að styðja við lista- og menningarlíf, sem hafi hjálpað til. Tekist hafi að halda faraldrinum þokkalega í skefjum hér á landi, og því hafi tekist að halda framleiðslu úti að mestu leyti. Þá hafi færri myndir verið frumsýndar í fyrra en venjulega, og því sé þetta að hluta uppsafnað. Loks séu streymisveitur að sækjast eftir efni í auknum mæli, nú þegar fólk er meira heima við.

„Og nú er einmitt lag, nú þegar kvikmyndagerðin er komin þetta vel á veg, bæði faglega og listrænt og hvað sögur varðar, að geta kannski meira farið á það hjól. Þetta er svona alþjóðlegt hjól. Og í þessum heimi er ekkert verið að setja út á texta þannig að það má vera á okkar ástkæra og ylhýra. Þannig að það eru ótal tækifæri til vaxtar og aukinnar velgengni,“ segir Laufey.

Á meðal bíómynda sem væntanlegar eru á árinu má nefna Skjálfta í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur, en myndin er byggð á sögu Auðar Jónsdóttur. Þá má nefna kvikmyndina Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar, sem skartar engri annarri en stórstjörnunni Noomi Rapace í aðalhlutverki.

Hvað þáttaraðirnar varðar má nefna Systrabönd og Kötlu þar sem Baltasar Kormákur heldur um stjórnartaumana, en sagan gerist í Vík í Mýrdal, ári eftir Kötlugos. Þá verður sjónvarpsþáttaröðin Vitjanir sýnd á RÚV næsta vetur og einnig er von á Ófærð 3 og Stellu Blómkvist 2 síðar á þessu ári, svo fátt eitt sé nefnt. Sjá má atriði úr nokkrum þessara verka í myndskeiðinu hér að ofan.

 

Tengdar fréttir

Menntamál

„Komið að ögurstundu“ í viðræðum um kvikmyndanám

Kvikmyndir

Ætla að auka stuðning við kvikmyndagerð

Kvikmyndir

Aðgerðir um að bæta hlut kvenna í kvikmyndagerð

Pistlar

Konur leikstýra aðeins 10% íslenskra kvikmynda