Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ein tilkynning til viðbótar um mögulegar aukaverkanir

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Lyfjastofnun hefur borist ein tilkynning til viðbótar um mögulega alvarlega aukaverkun Comirnaty, bóluefnis Pfizer og BioNTech gegn COVID-19. Tilkynnt var um andlát aldraðrar manneskju, sem fékk bólusetningu í lok síðasta árs, og lést fyrir skömmu. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að metið verði hvort andlátið geti tengst bólusetningunni, þar sem meira en vika hafi liðið á milli hennar og andlátsins.

Á fimmtudaginn hafði 41 tilkynning borist stofnuninni, þar af fimm alvarlegar og af þeim voru fjögur andlát. Þar með eru slíkar tilkynningar orðnar sex. Í kjölfarið ákváðu landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar að fá tvo sérfróða lækna til að fara yfir þessi tilvik og eiga niðurstöðurnar að liggja fyrir fljótlega.

Rúna segir að óvíst sé hvort þetta andlát muni verða tekið inn í rannsóknina. „Hugsanlega er tímalínan orðin of löng,  en  það er læknanna sem fara með rannsóknina að meta það.“

Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum, en eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé þar á milli. Hópurinn sem var bólusettur með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl.