Býður typpakarlinn John Dillermand hættunni heim?

Mynd: DR / DR

Býður typpakarlinn John Dillermand hættunni heim?

09.01.2021 - 09:00

Höfundar

Stór og mikilvægur hluti þess að vera foreldri, er að vaka yfir velferð barna sinna. Hætturnar leynast víða. Foreldar hafa því gjarnan sterkar skoðanir á því barnaefni sem sjónvarpsstöðvar bjóða upp á, ekki síst ríkisreknar stöðvar. Það þarf því ekki beint að koma á óvart að nýr barnaþáttur, í danska ríkissjónvarpinu, hafi sett allt á hliðina í Danaveldi, þátturinn John Dillermand, sem á íslensku gæti útlagst Jón Typpakall. 

„Góðan dag, John Dillermand hérna,“ segir í upphafskynningu þáttanna. Þar segir ennfremur að Jón sé með lengsta typpi í heiminum, „verdens lengste diller“, og það sé næstum ekkert sem hann ekki getur gert með því.

Typpakall í matrósafötum

Þættirnir fjalla um typpakallinn Jón, miðaldra mann í matrósafötum og með snyrtilegt yfirvaraskegg, ekki ólíkur útbrunnu karlmódeli sem Jean-Paul Gaultier hefði ráðið í vinnu. Hann býr hjá langömmu sinni, og er með risastórt typpi sem hefur sinn eigin vilja. Typpið á Jóni kemur honum oft í klandur, eins og til dæmis þegar Jón ætlar að grilla pylsur í garðinum heima.

Jón er mikill pylsumaður en er hræddur við eld. Þá grípur typpið á Jóni til sinna ráða og hellir vel af grillolíu á grillið.  Eins og heyra má líst Jóni ekkert á ráðagerðir typpisins. Langamman varar þá við, þetta er hættulegt! Það kviknar í grillinu og typpinu sömuleiðis, sem Jón ákveður að kæla í saftinu sem amma gamla hafði gert, við litla kátínu þeirrar gömlu.

„En, það var typpið sem gerði þetta,“ segir Jón þá.

Já, það var einmitt typpið sem gerði þetta. Í þáttunum um John Dillermand hefur typpið á Jóni, sem er feykilangt og klætt í sama þverröndótta mynstrið og matrósagalli Johns er úr, nefnilega að því er virðist sjálfstæðan vilja. Eðli málsins samkvæmt kemur það Jóni því oft í klandur. Það gerir bara það sem það langar til að gera. Til dæmis þegar það stelur ís af börnum. 

Skrýtin skilaboð?

Þátturinn var frumsýndur á barnastöð danska ríkissjónvarpsins, Ramasjang, síðastliðinn laugardag. Hann er ætlaður börnum á aldrinum fjögurra til átta ára, og hefur vakið misjöfn viðbrögð í heimalandinu. Gagnrýnendur stukku upp á nef sér og sögðu mjög óeðlilegt að maður sem hefði ekki stjórn á typpinu á sér væri aðalsöguhetjan í þætti fyrir börn.

Danski rithöfundurinn Anne Lise Marstrand-Jorgensen spurði, eru þetta virkilega skilaboðin sem við viljum senda til barnanna okkar í miðri #MeToo-bylgju? Einungis nokkrir mánuðir eru síðan leikkonan og sjónvarpskynnirinn Sofie Linde vakti athygli á kynferðislegri áreitni sem hún og starfssystur hennar í skemmtanaiðnaðnum, meðal annars innan veggja danska Ríkisútvarpsins, hafa þurft að þola.

Christian Groes, lektor og kynjafræðingur við Hróarskeldu-háskóla segir að það hvernig handritshöfundar þáttanna upphefji kynfæri karlmanna, gæti haft neikvæð og óafturkræf áhrif á jafnréttisbaráttuna. 

John Dillermand á sína stuðningsmenn

En ekki eru allir á sama máli. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir öll vandræðin sem typpið á Jóni kemur honum í, er Jón sjálfur besta skinn og leggur sig fram við að bæta upp skaðann sem typpið á honum veldur. Erla Heinesen Hojsted, klínískur sálfræðingur sem vinnur með fjölskyldum og börnum, segir að gagnrýnendur þáttanna ofhugsi málið. „Í þættinum sjáum við hvatvísan mann sem gerir mistök, eins og börn gera, en það sem er mikilvægt er að John Dillermand bætir alltaf upp fyrir það,“ segir hún. Hún heldur áfram og segir John taka ábyrgð á gjörðum sínum. 

Ekki í fyrsta sinn sem Danir ganga fram af áhorfendum

Já, það er margt skrýtið í Danaveldi, og erftitt að ímynda sér að barnaþáttur um Jón typpakall yrði framleiddur hér á landi, hvað þá fyrir ríkissjónvarpið. En hvers vegna? Danir hafa löngum þótt framúrstefnulegir í sinni listsköpun, einna helst þá þegar kemur að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ég hef löngum verið á þeirri skoðun að ástæðan fyrir því að dönsk kvikmyndagerð er jafn góð og raun ber vitni, sé sú að Danir eru ekki fastir í fortíðinni, ekki fastir í sögulegum sársauka þjóðar, hungursneyð, fátækt, styrjöldum, og svo framvegis. Með öðrum orðum, það hefur alltaf verið gott að vera Dani. Og því hafa handritshöfundar þurft að hugsa út fyrir kassann og leita að hinu sammannlega. Manni ofbýður stundum danskt sjónvarpsefni, en á sama tíma tekst dönskum oftar en ekki að koma skilaboðum áleiðis í gegnum þessar óhefðbundnu leiðir. Og kannski er það tilgangurinn með John Dillermand. 

Stuðningsmenn þáttanna hafa fært rök fyrir því að typpið á John Dillermand hafi enga kynferðislega skírskotun í þessum þáttum, heldur sé það fyrst og fremst táknmynd þess að við erum ekki fullkomin og gerum mistök. John sjálfur sé málaður upp sem drengur góður, hjartahlýr og með sterka réttlætiskennd. Og stundum tekst John og typpinu að vinna saman, eins og þegar þeir í sameiningu koma í veg fyrir að barnavagn renni út á götu.

Það skal þó ekki líta framhjá því augljósa. Þetta er sannarlega ögrandi sjónvarpsefni fyrir börn, og maður skilur fullvel áhyggjur foreldra af því að hvaða áhrif það hefur á lítil börn að horfa á sjónvarpsþætti þar sem aðalsöguhetjan er maður hvers heimsins stærsta typpi lætur öllum illum látum. Gæti það til dæmis auðveldað barnaníðingum að koma vilja sínum fram. Hver veit? 

Danska ríkissjónvarpið hefur þó svarað gagnrýnisröddum á þá leið að þau hefðu allt eins getað framleitt þátt um konu sem hafa enga stjórn á píkunni sinni, og það sem mestu máli skipti sé að börnin hafi gaman af efninu. Sagan sýnir okkur þó að kynfæri karla og kvenna hafa hingað til ekki verið normalíseruð með sama hætti. 

En John Dillermand, og óstýriláta stóra typpið hans, verður því áfram á skjám danskra landsmanna.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Barnaefni um heimsins lengsta typpi hneykslar Dani