Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir erfitt að ræða breytingar undir málaferlum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ráðherra sveitarstjórnarmála segir erfitt að ræða breytingar á greiðslum til Reykjavíkurborgar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga meðan staðið sé í málaferlum. Hann lýsir yfir vilja til viðræðna við borgina.

Reykjavíkurborg stefndi íslenska ríkinu rétt fyrir áramót og krefst liðlega 5,4 milljarða króna greiðslu úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna tímabilsins 2015 til 2019, en borgin telur sig ekki hafa fengið þær greiðslur sem henni bar, meðal annars greiðslur vegna grunnskólabarna sem hafa íslensku sem annað tungumál. Jafnframt samþykkti borgarráð í gær að lýsa yfir vilja til viðræðna við ríkið um lausn málsins. Stefnan verður þingfest undir lok mánaðar.  Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála segist viljugur að ræða málið.

„Jú, við vorum satt best að segja í samtali á síðustu vikum síðastliðins árs og munum án efa halda því áfram, en Reykjavíkurborg ákvað að halda því til streitu að stefna ríkinu og það verða þeir að eiga við sig. Ég hef sagt að það sé sérkennileg stefna vegna þess að hún snúist um samkomulag sem ríki og sveitarfélög, þar á meðal Reykjavíkurborg, gerðu árið 1996.“

En þá fluttist rekstur grunnskóla yfir til sveitarfélaganna. Sigurður Ingi segir sjálfsagt að ræða breytingar, en það sé erfitt undir málaferlum. Reykjavíkurborg hefur sagt að hún fái, eitt sveitarfélaga, ekki greiðslur fyrir nýbúafræðsluna úr sjóðnum og vill leiðrétta það.

„Jú, fyrir þetta tiltekna atriði varðandi nýbúa held ég að það komi  vel til greina, en því miður snýr stefnan að fleiri þáttum.“