Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Reykjavíkurborg stefnir og kallar eftir sáttum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Reykjavíkurborg hefur stefnt íslenska ríkinu og krefst rúmlega 5,4 milljarða króna vegna vangoldinna greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á sama tíma og ríkinu er stefnt óskar borgin eftir sáttaviðræðum við ríkið um lausn á málinu.

Málið snýst um samkomulag sem gert var milli ríkisins og sveitarfélaga árið 1996 vegna flutning grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaganna.  Reykjavíkurborg telur að hún eigi inni greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir tímabilið 2015 til 2019 vegna rekstrar grunnskóla og kennslu nemenda með íslensku sem annað mál eða nýbúafræðslu, en alls nemur upphæð kröfunnar 5,4 milljörðum króna auk vaxta og dráttarvaxta. Reykjavíkurborg hafði gefið ríkinu frest til að gera upp við borgina og rann sá frestur út í desember. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt það ósanngjarnt að Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, fái ekki framlag vegna þessa. Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra hefur sagt að ekki komi til greina að ganga að kröfum borgarinnar sem beinist gegn öðrum sveitarfélögum. Hann hefur lýst sig reiðubúinn að ræða  endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs, en að sækja kröfur aftur í tímann sem bitni á öðrum sveitarfélögum kippi grundvellinum undan sjóðnum.

Ríkislögmaður hefur fyrir hönd ríkisins hafnað kröfu borgarinnar og stefndi borgarlögmaður því ríkinu 30. desember og verður málið væntanlega þingfest 28. þessa mánaðar. Borgarráð samþykkti engu að síður á fundi sínum í gær að fela borgarritara og borgarlögmanni að annast viðræður við ríkið um lausn málinu. Á fundinum var kynnt bréf þess efnis sem borgarstjóri sendi sveitarstjórnarráðherra á þriðjudaginn, en þar segir að í samræmi við umræður og þrátt fyrir málshöfðunina lýsi Reykjavíkurborg sig viljuga til áframhaldandi viðræðna um lausn málsins, borgin hafi fulla trú á að sættir geti tekist og vonast til þess að ríkið nálgist málið af sama hug.

Leiðrétting:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var sagt að krafa Reykjavíkurborgar væri upp á 8,7 milljarða. Hið rétta er að krafan hljóðar upp á 5.417.946.368 krónur auk vaxta. Beðist er velvirðingar á þessu.