Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neyðarástand í Lundúnum vegna yfirfullra spítala

08.01.2021 - 13:44
epa06375867 Sadiq Khan, first ever British Citizen of Pakistani origin to become the Mayor of London, visits the mausoleum of founder of Pakistan Muhammad Ali Jinnah, during his visit to Karachi, Pakistan, 08 December 2017. Sadiq Khan is on an official
Sadiq Khan, borgarstjóri í Lundúnum. Mynd: EPA-EFE - EPA
Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, hefur lýst yfir neyðarástandi í borginni vegna yfirfullra spítala. Vegna mikils fjölda sjúklinga með COVID-19 sé staðan tvísýn. Breskir fjölmiðlar greina frá því að hann grípi til þessa til að flýta fyrir auknum framlögum til heilbrigðiskerfisins.

Einn af hverjum þrjátíu Lundúnabúum eru smitaðir af veirunni sem stendur. Ef ekki verði gripið til aðgerða gæti farið svo að heilbrigðiskerfið ráði ekki við ástandið og fleiri eigi eftir að deyja. Faraldurinn sé farinn úr böndunum í borginni, segir borgarstjórinn. 

Yfir sjö þúsund sjúklingar á spítölum borgarinnar eru með COVID. Það eru tvö þúsund fleiri en í fyrstu bylgunni í apríl. Nær eitt þúsund sjúklingar eru í öndunarvél.

Nýtt afbrigði veirunnar sem talið er smitast 50 til 70 hraðar milli fólks en önnur hefur dreifst hratt um landið. Miklar hömlur eru á daglegu lífi fólks, sem á helst ekki að fara út nema brýna nauðsyn beri til.