Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Murdoch snýr baki við Trump

08.01.2021 - 22:47
Donald Trump og Rupert Murdoch
 Mynd: Samsett - Ljósmynd
Fjölmiðlakóngurinn Rupert Murdoch sem hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður Donalds Trumps hefur snúið við honum bakinu eftir atburði miðvikudagsins þegar hópur stuðningsmanna forsetans braust inn í þinghúsið í Washington. Í fjölmiðlum Murdochs er þess krafist að forsetinn eigi að segja af sér áður en hann valdi meiri usla. Öldungadeildarþingmaður Repúblikana krefst afsagnar Trumps og að flokkurinn sendi skýr skilaboð um að hann eigi ekki samleið með forsetanum fráfarandi.

Murdoch stóð þétt við bak Trumps í kosningabaráttunni fyrir rúmum fjórum árum og hafa miðlar hans verið hliðhollir forsetanum. Nú er annað hljóð í strokknum, en í The New York Post, sem er í eigu Murdochs, er Trump sagður bera ábyrgð á innrásinni í þinghúsið í Washington á miðvikudaginn þar sem fimm létust. „Þetta er ekki hægt að réttlæta með nokkru móti,“ segir í grein blaðsins.

Í sama streng er tekið í ritstjórnargrein í The Wall Street Journal, sem Murdoch gefur einnig út, en þar er Trump hvattur til að segja af sér áður en hann sætir ákærum. „Það væri best fyrir alla,“ segir í ritstjórnargreininni.

Lisa Murkowski, öldungardeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, hefur nú bæst í hóp þeirra sem krefjast þess að Trump segi af sér. Murkowski, sem situr í öldungadeildinni fyrir Alaska-ríki segir að Trump hafi valdið skaða í forsetatíð sinni og að nauðsynlegt sé að Repúblikanaflokkurinn sendi skýr skilaboð um að hann eigi ekki samleið með forsetanum.