
Lögreglustjóri á Capitol-hæð segir upp
Lögregla á Capitol-hæð í Washington-borg liggur undir þungu ámæli fyrir svifasein viðbrögð þegar fjöldi mótmælenda ruddist inn í þinghúsið í gærkvöldi. Tveir æðstu menn öryggismála á hæðinni hafa sagt upp störfum.
Steven Sund yfirmaður löggæslumála á Capitol-hæð sagði starfi sínu upp í dag gær í kjölfar þess að æstir stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta gerðu áhlaup á þinghúsið.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins, kallaði eftir afsögn Sunds og tilkynnti á blaðamannafundi í gær að Paul Irving réttarþjónn hefði þegar sagt upp störfum. Gagnrýni á varðgæslu við þinghúsið beinist einkum að hve óviðbúin hún virðist hafa verið.
Pelosi lofar rannsókn á atburðarásinni sem hófst með útifundi og lyktaði með því að ráðist var inn í þinghúsið, forða þurfti þingmönnum brott, að minnsta kosti fjögur úr hópi mótmælenda létu lífið og fjöldi særðist. Í nótt bárust fréttir af því að árásin hefði kostað einn lögreglumann lífið.
Hann hét Brian Sicknick og særðist í átökum við mótmælendur, segir í yfirlýsingu lögreglunnar á Capitol-hæð. Þegar hann sneri til baka á lögreglustöðina hné hann niður og var þegar fluttur á sjúkrahús. Þar lést hann af sárum sínum á fimmtudagskvöld, að því er segir í yfirlýsingunni.
Pelosi segir að rannsaka verði málið í þaula og ekki aðeins þátt varðgæslunnar við þinghúsið, til að mynda þurfi einnig að kanna skort á upplýsingum frá alríkislögreglunni (FBI) og sömuleiðis hve langan tíma það tók fyrir varnarmálaráðuneytið að átta sig á að fulltingis þjóðvarðliðsins væri þörf.
Uppsögn Sunds tekur gildi 16. janúar.
Fréttin var uppfærð kl. 05:32.