Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ísland fær tvöfalt fleiri skammta frá Pfizer

epa08924691 A medical assistant holds a Pfizer BioNTech COVID-19 vaccine vial against the coronavirus Sars-CoV-2 at the vaccination center in Mainz, Germany, Germany, 07 January 2021. Vaccinations against the coronavirus started at centers in Rhineland Palatinate state to curb the COVID- 19 pandemic.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísland fær 250.000 skammta af kórónuveirubóluefni Pfizer og BioNTech til viðbótar við þá 250.000 skammta sem þegar hafði fengist vilyrði fyrir. Þetta er hluti af samningum Evrópusambandins við lyfjafyrirtækið, en í morgun tilkynnti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, frá því að ESB hefði náð samkomulagi um kaup á tvöfalt fleiri skömmtum en fyrri samningar kváðu á um.

Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, staðfestir í samtali við fréttastofu að þetta eigi við um þann fjölda kórónuveirubóluefnisskammta frá Pfizer og BioNTech sem Ísland fær. 

„Við fáum tvöfalt fleiri skammta en til stóð. Við eigum, rétt eins og aðrar Evrópuþjóðir, sama rétt á því sem samið er um. Þegar var búið að semja um 250.000 skammta og þetta veitir okkur rétt á 250.000 skömmtum til viðbótar,“ segir Margrét.

Fyrri skammtafjöldi af bóluefninu frá Pfizer og BioNTech dugar fyrir 125.000 og með viðbótinni hefur Ísland tryggt sér bóluefni fyrir 250.000 manns. Margrét segir að ekki liggi fyrir hvenær bóluefnið komi hingað til lands.