Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta andlátið af völdum COVID-19 í Færeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Landsjúkrahúsið í Færeyjum
Fyrsta dauðsfallið hjá COVID smituðum í Færeyjum varð í fyrradag. Þá lést 68 gamall karlmaður á spítalanum í Þórshöfn eftir að hafa verið lagður inn á gjörgæsludeild í byrjun desember með alvarlegan sjúkdóm annan en COVID-19.

Maðurinn greindist svo með veiruna síðar í mánuðinum. Færeyska fréttastofna FO Nyhedsbureau greinir frá þessu. Skömmu fyrir jól hafi maðurinn svo verið færður á COVID-deild sjúkrahússins þar sem hann andaðist á þriðjudaginn.

Veiran fór á flug í Færeyjum milli jóla og nýjárs og smituðust mest 19 á dag en dregið hefur úr smitum á nýja árinu.  Alls hafa nú 640 greinst með COVID-19 í Færeyjum frá því að faraldurinn braust út og 579 hafa náð sér af sjúkdómnum. Virk smit í eyjunum eru því 61 en einn liggur á sjúkrahúsi.

Landsstjórnin hefur gefið út nýjar viðmiðunarreglur vegna aukinnar útbreiðslu faraldursins og nýs meira smitandi afbrigðis veirunnar, þeirra á meðal var ákveðið að framlengja skyldu veitingastaða og öldurhúsa að loka klukkan tíu að kvöldi. Það er í raun framlenging á hluta strangra reglna sem giltu um jól og áramót.

Færeyingar eru sömuleiðis lattir til ónauðsynlegra ferða af landi brott og ferðamenn til eyjanna eru beðnir að sýna sérstaka aðgát í aðdraganda heimsóknar þangað.

Ferðamenn þurfa að hafa undirgengist kórónuveirupróf þremur dögum fyrir brottför og dvelja í sóttkví þar til neikvæð niðurstaða skimunar við komu liggur fyrir.

Innanlands er almenningur og fyrirtæki brýnd til að gæta að fjarlægðartakmörkunum og hreinlæti og mælt er með grímunotkun. Ekki mega fleiri en 100 koma saman að því gefnu að mögulegt sé að halda tveggja metra reglu í heiðri, íþróttaviðburðir skulu haldnir án áhorfenda og þess farið á leit að fjölmennum samkomum verði aflýst eða frestað.