Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Friðsælt um að litast

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Arnalds - mercury kx

Friðsælt um að litast

08.01.2021 - 09:14

Höfundar

Ný breiðskífa Ólafs Arnalds kallast Some kind of Peace og er höfgi bundin, eins og nafnið gefur til kynna. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Hugmyndafræðin að baki þessu verki er skýr, er undirstrikuð með titli og umslagi. Ró, friður, stilla. Eitthvað sem allir vilja, allir sækjast eftir en ná aldrei. Eða finnst þeir aldrei ná. Og titillinn er dálítið lúmskur hvað þetta varðar. „Einhvers konar“ friður. Kannski ekki endilega sá sem fæst með því að sitja í tvo tíma á toppi Esjunnar, kannski bara þennan mínútufrið sem þú krækir í á flugvellinum þegar vélin er ögn sein (munið þið?).

Í öllu falli opnar Ólafur með laginu Loom, hvar breski raftónlistarmaðurinn Bonobo er gestur. Hæg en örlítið knýjandi rafstemma með þægilegu skruði eða „glitch“-i. Pæling um að friðurinn sé aldrei fullkominn? Alltaf „smá“ truflun? Ólafur ákveður að fara dýpra með friðinn í næsta lagi, Woven Song, þar sem hann kastar skruðinu til hliðar. Engu að síður er þarna söngrödd, ég sé japanska konu fyrir mér. Áfram er haldið, Spiral einkennist af strengjum og píanói og er friðsamasta lagið til þessa. Hér er stilla. Og enn meiri í næsta lagi/verki, Still / Sound. Eitt leiðir af öðru greinilega en allt eru þetta þó ólík tilbrigði við stef. Alls konar friður.

Back to the Sky, hvar JFDR syngur, er nánast slagari samanborið við það sem á undan fór. En Zero grundar okkur, bókstaflega. Fallegur, „ambient“-leginn óður en þó með surgandi uppbroti. Ég held áfram að túlka þetta sem komment á hvað við álítum vera frið þó að tónlistarmaðurinn sé ábyggilega ósammála! New Grass leyfir sér að vera smá epískt, smá „stórt“, en bara smá (broskall). The Bottom Line er sungið af hinni þýsku Josin sem tónar yfir strengjum sem rísa bæði og falla. We contain multitudes er undarlega róandi, hvar heyra má á tal tveggja í upphafi áður en ljúfsárt – og giska snoturt – píanó tekur við. Undone lokar verkinu og í upphafi má og heyra rödd. Ég fæ smá Gavin Bryars tilfinningu við þetta. Það er bara þannig.

Það er friður hér, bæði í tónlistinni og í einslags tónrænni hugleiðingu um hvað það nákvæmlega er. Næst er svo að frumsýna stuttmynd sem tengist inn í þetta verk. Ólafur er nefnilega alltaf að. Hann fékk þó smá frið hér...

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ólafur Arnalds - some kind of peace

Popptónlist

Þurfum á tilfinningaríkri tónlist að halda

Klassísk tónlist

Sjálfspilandi píanó Ólafs Arnalds

Popptónlist

„Erum bara að spila spil og fara á trúnó“