Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fjöldatakmarkanir í 20 og skylda fólk í Farsóttarhús

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fjöldatakmarkanir verða 20 manns, heilsu- og líkamsræktarstöðvum verður gert kleift að hefja starfsemi á ný en með ströngum skilyrðum og skíðasvæðunum sömuleiðis. Þetta er meginefni breyttra reglna um samkomutakmarkanir sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis og kynntar voru á fundi ríkisstjórnar í dag. Þær taka gildi 13. janúar og gilda til 17. febrúar næstkomandi.

Þær fela einnig í sér að íþróttastarf barna og fullorðinna verður heimilað að uppfylltum skilyrðum og sömuleiðis íþróttakeppnir án áhorfenda. Fjöldamörk í sviðslistum verða aukin þannig að 50 manns mega vera á sviði og í sal 100 fullorðnir og 100 börn með grímur. Sama gildir um aðra menningarviðburði.

„Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að þetta er með þeim fyrirvara að faraldurinn sé áfram í jafnvægi og við séum ekki að missa þá stöðu úr böndunum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Að því gefnu eru ákveðnar tillögur sem hann leggur til við mig og ég er með reglugerð í undirbúningi á grundvelli þeirra tillagna.“

Reglur varðandi opnun og fjölda á veitingastöðum og börum verður óbreytt.

Verðum að varðveita árangurinn sem náðst hefur

Svandís segir að nú sé verið að skoða tillögur sóttvarnalæknis um breytt fyrirkomulag sóttvarna við landamærin og að fólk verði skyldað til að fara í skimun þegar það kemur inn í landið.  Hún segir að til mikils sé að vinna, staðan víða um heim sé alvarleg. „En við sjáum á tölum dagsins að þeim smitum er að fjölga sem greinast á landamærunum og við þurfum að gera eins og við getum til að varðveita þennan árangur hér innanlands.“ 

Svandís segir að tillögurnar feli meðal annars í sér að þeir sem velji að fara ekki í skimun við landamærin verði skyldaðir til að dvelja í sóttkví í Farsóttarhúsinu í 14 daga. Þá fela þær ennfremur í sér aukið eftirlit með þeim sem bíða í þá fimm daga sem tilskyldir eru á milli skimana þegar komið er inn í landið.

„Loks tillaga sem ég held að sé sjálfsagt að ráðast í eins fljótt og hægt er og lýtur að því að börn þeirra sem eru í sóttkví fari líka í sóttkví en fari ekki í skólann eins og verið hefur.“ 

Stórar spurningar sem við stöndum frammi fyrir 

Svandís segir að til þess að hægt verði að skylda fólk til að dvelja í Farsóttarhúsinu þurfi lagabreytingu. „Það er í frumvarpi sem liggur núna fyrir þinginu. Það eru stórar spurningar sem við stöndum frammi fyrir varðandi það að skylda fólk með þessum hætti. En við erum fyrst og fremst að skoða þessa valkosti og með hvaða hætti við nálgumst þann hóp sem velur sig framhjá skimun. Sem betur fer eru þetta örfáir, þetta hefur verið innan við 1%.“

Svandís segir að nýjir samningar Evrópusambandsins við lyfjafyrirtækið Pfizer um kaup á kórónuveirubóluefni, sem fela í sér tvöfalt meira magn en fyrri samningar fólu í sér, hafi áhrif á framboð bóluefnis hér á landi. „Við ákváðum að vera í þessu samfloti til að tryggja okkur sama aðgang að lyfjum og er í öllum Evrópulöndum. Ég er að skoða hvernig þetta kemur út fyrir okkur.“