Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ferðafólk til Englands framvísi neikvæðu COVID-prófi

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Öllum ferðamönnum til Englands verður gert skylt að sýna neikvætt kórónuveirupróf við komuna til landsins. Prófið má ekki vera eldra en 72 tíma gamalt.

Þessar reglur, sem eiga að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu faraldursins, taka gildi snemma í næstu viku samkvæmt upplýsingum frá breska samgönguráðuneytinu. England er nú á efsta viðbúnaðarstigi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. 

Reglurnar eiga jafnt við um Breta sem ferðafólk frá öðrum löndum en séu reglurnar sniðgengnar má búast við allt að 500 sterlingspunda sekt, eða sem nemur ríflega 85 þúsund krónum. 

Grant Shapps samgönguráðherra Bretlands segir þessa ákvörðun nauðsynlega í ljósi þess hve mjög faraldurinn herjar á landið núna. „Að fara í skimun fyrir brottför úr landi eykur öryggi,“ segir ráðherrann, „ásamt áskilinni sóttkví þess fólks sem kemur frá löndum þar sem ástandið er mjög alvarlegt.“

Á þriðjudaginn var gripið til strangra sóttvarnaraðgerða á Englandi, skólum og verslunum sem ekki selja nauðsynjavörur var gert að loka um allt að sex vikna skeið.