Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

ESB semur við Pfizer um tvöfalt fleiri skammta

08.01.2021 - 10:17
epa08925856 European Commission President Ursula Von der Leyen gives a presser on the EU's vaccine strategy in Brussels, Belgium, 08 January 2021. Von der Leyen said the EU Commission had ordered a further 300 million COVID-19 vaccine doses from Biontech / Pfizer.  EPA-EFE/FRANCOIS WALSCHAERTS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Evrópusambandið hefur náð samkomulagi við Pfizer og BioNTech um kaup á 300 milljón skömmtum til viðbótar af bóluefni við COVID-19. Þar með hefur Evrópusambandið nú tryggt sér tvöfalt fleiri skammta en áður, alls 600 milljón skammta.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, greindi frá þessu í morgun. Hún sagði að 75 milljónum af þessum aukaskömmtum yrði dreift á öðrum ársfjórðungi, þ.e. frá apríl til júní. Evrópusambandið hefur þegar samið um kaup á 150 milljón skömmtum af bóluefninu frá Moderna.

Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér 250.000 skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech sem duga fyrir um það bil 125.000 manns. Sem stendur hefur fréttastofa ekki upplýsingar um það hvort nýr samningur milli ESB og Pfizer um fleiri skammta hafi áhrif á afhendingaráætlun fyrirtækisins á skömmtum hingað til lands.