Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bruni á ruslahaugum í Álfsnesi — íbúar loki gluggum

08.01.2021 - 08:36
Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um hálfsjöleytið í morgun eftir að eldur kviknaði á ruslahaugum í urðunarstöð Sorpu í Álfsnesi í Reykjavík. Varðstjóri slökkviliðsins segir að kviknað hafi í dekkjakurli, sem notað er til að stafla rusli, og að það hafi komið fyrir nokkrum sinnum áður. Sennilega hafi orðið sjálfsíkveikja.

Enn logar þónokkur eldur og reykur berst í átt að Esjumelum og Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ. Slökkviliðið ráðleggur fólki í efri byggðum Mosfellsbæjar að loka gluggum.

Slökkvistörf hafa staðið yfir í hátt í þrjár klukkustundir og Sigurður Pétursson, varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að búið sé að leggja sand og drullu yfir eldinn til þess að hindra frekari útbreiðslu. Vindáttin sé hagstæð eins og er en að hún eigi að breytast og þá sé hætta á að reykurinn berist yfir íbúabyggð.

Myndskeiðið sem fylgir fréttinni tók Bragi Valgeirsson, tökumaður RÚV.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV