Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta hefði getað farið miklu verr“

07.01.2021 - 20:03
Rafmagn fór af slökkvistöðinni á Akureyri nokkrum andartökum áður en útkall barst um eld í Glerárskóla í gærkvöld. Rafmagnsleysið tafði slökkviliðið sem tókst þó að slökkva eldinn áður en hann breiddist út.

Reykur og sót barst í spennistöð

Allt tiltækt slökkvilið var kallað að skólanum um klukkan hálftólf, þegar tilkynning barst um eld við kjallara hans. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá flugeldum sem voru sprengdir við kjarllara hússins og læst sig í timbur og rusl í geymslu. Þaðan hafi reykur og sót borist yfir í spennistöð sem sló út rafmagn á stórum hluta bæjarins.

„Þurftum að byrja á því að berjast við að koma bílunum út“

Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri segir rafmagnsleysið hafa haft töluverð áhrif á störf liðsins. „Það vildi nú þannig til að nokkrum mínútum, ef það náði mínútu, áður en útkallið kom fór nú rafmagnið hérna af stórum hluta bæjarins og þar á meðal slökkvistöðinni þannig að þurftum að byrja á því að berjast við að koma bílunum út úr stöðinni, sem tafði nú aðeins fyrir,“ segir Ólafur. 

Stóð vaktina í alla nótt

Skólahald féll niður í skólanum í dag og voru starfsmenn í óðaönn að þrífa og lofta út þegar fréttastofu bar að garði. Ómar guðmundsson, húsvörður var í alla nótt að hreinsa til í og við skólann. „Þetta eru töluverðar skemmdir en þetta hefði getað farið miklu verr ef þetta hefði farið inn í kennsluálmurnar eða borist eitthvað víðar, “ segir Ómar. 

Ungmenni gáfu sig fram

Greiðlega gekk að slökkva eldinn og skömmu eftir að slökkvistarfi lauk höfðu nokkur ungmenni gefið sig fram og viðurkennt að hafa kveikt í flugeldum við skólann. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er málið enn í rannsókn og óvíst hvort kveikt var í af ásetningi eða gáleysi.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV